Mannlíf

Ásgeir og traktorarnir
Sunnudagur 18. október 2020 kl. 07:37

Ásgeir og traktorarnir

Ásgeir Hjálmarsson, Garðmaður, var skipstjóri og átti langan starfstíma tengdan fiskveiðum og fiskvinnslu. Svo tók við hjá honum uppbygging minjasafnsins á Garðskaga. Það má telja gott verk að koma upp fjölbreyttu minjasafni með þúsundum gripa tengdum sjávarútvegi, fiskvinnslu, heimilismunum og verkfærum. Inni í safninu má finna heimili frá miðbiki síðustu aldar, símstöð, verkstæði og mikið myndasafni – svo er vélasafn Guðna Ingimundarsonar með fjölda gangfærra véla skrautfjöður þessa alls.

Er Ásgeir lét af starfi minjafrumkvöðuls á Garðskaga hefði mátt vænta setu hans í helgum steini. Svo varð þó ekki. Hann hefur í framhaldinu byggt upp áhugavert einkasafn í fyrrum þurrfiskhúsum Odds í Presthúsum, afa síns. Þar er nú einstakt fjölbreytilegt munasafn, s.s. líkön, smámunir, verkfæri, ökutæki og traktorar. Hann vinnur nú að uppgerð gamals járnhjóla traktors af gerðinni International og er það þriðji traktorinn sem fær uppgerð í höndum Ásgeirs á skömmum tíma. Reyndar er Nallinn fjórði traktorinn sem Ásgeir gerir upp því að á byggðasafninu á Garðskaga er Farmall Cub, árgerð 1950, sem hann endurgerði um 1990. Sá traktor kom frá Nesjum, síðasti eigandi var Golfklúbbur Sandgerðis. Traktorinn þurfti allsherjar lagfæringu og mótor hans gerður upp. Honum fylgdi sláttugreiða og sló Ásgeir töluvert með honum áður en traktorinn fór á safn.

Margir koma í skúrana til Ásgeirs og sumir gefa góð ráð. Tveir hafa þó lagt hönd á plóg svo um munar. Guðni sonur Ásgeirs hefur hæfni nafna síns og afa í þrautseigju við fastgrónar vélar og Ólafur Björgvinsson frá Háteigi er guðfaðir yfirborðsfrágangs. Þannig hefur Ásgeir fulllokið uppgerð þriggja traktora og sá fjórði er á vinnuborðinu. Allar eru vélarnar bensíndrifnar.

Farmall A, árgerð 1946

Traktorinn er um 75 ára gamall, bandarísk smíð. Þessar vélar voru einstakt framfaraspor á sínum tíma. Með þeim mátti slá, flytja hey og mjólkurbrúsa og voru þær stórt framfaraspor í landbúnaði. Séra Eiríkur á Útskálum var einnig stórbóndi. Hann eignaðist svona traktor 1946. Sá traktor fór í Miðhús er Eiríkur flutti til vesturheims og er enn starfshæfur í höndum Miðhúsamanna. Þá voru svona traktorar einnig á Meiðastöðum og í Bræðraborg.

Farmallinn kom til Ásgeirs um 1995 frá Stafnesi. Þar var helsta verkefni vélarinnar að undirbúa matjurtagarða. Stafnesmenn voru stórtækir í kartöflum og rófum. Það fylgdi honum búnaður til þess að lyfta plóginum. Það eru nokkuð sérstakur lyftibúnaður sem kallast pústlyfta. Útblásturinn frá vélinni virkar á lyftuna með því að loka að hluta fyrir pústið á vélinni.

Fljótlega tók Ásgeir traktorinn í sundur og gerði aflvélina gangfæra. Í mars 2019 fékk Ásgeir svo andann yfir sig og ákvað að nú skildi klára uppgerð þessa merkilega tæki. Allt sett á fullt að þrífa og láta sandblása stóra og smáa hluti. Síðan var traktorinn allur handmálaður og var klár í vinnu í ágúst 2019.

Ferguson TE-20, árgerð 1953

Fyrstur til endurupprisu í höndum Ásgeirs nú var þessi vél sem er bresk smíði. Með þeim kom nýjung sem skipti miklu fyrir bændur. Á þeim er vökvabúnaður til að lyfta, þannig að nú þurfti ökumaður ekki að streða við að lyfta sláttugreiðu eða öðrum lausabúnaði vélarinnar á höndum sér. Sigurbergur Þorleifsson, hreppstjóri, vitavörður og bóndi í Hofi og á Garðskaga, notaði þessa vél lengi við búrekstur.

Er Ásgeir fékk traktorinn var hann í ágætis standi nema að hann þurfti andlitslyftingu. Í september 2017 ákvað Ásgeir að nú væri tímabært að hressa upp á gripinn. Traktorinn rifinn sundur, allt nema aflvélin sem þurfti ekkert að gera við nema að þrífa. Aðra hluti, svo sem felgur, bretti, vélahlíf o.fl., var sandblásið. Ásgeir handmálaði hann að mestu en vélahlíf og bretti voru sprautuð. Þessi gerð af Ferguson á að vera grá að lit enda gengu þeir undir nafninu Gráni. Ásgeir svindlaði dálítið með litinn og málaði bretti og vélahlíf rauð til að hafa hann svolítið skrautlegan.

Sláttugreiða fylgdi honum og að sjálfsögðu var hún hreinsuð og máluð og virkar mjög vel.

Í júní árið 2018 var Gráni gamli tilbúinn fyrir slátt.

International McCormick W-4, árgerð 1946

Vélin var eign Búnaðarfélags Keldhverfinga og er vinnusaga hennar mikið til skráð, gekk þar undir nafninu Gamli rauður. Ásgeiri var boðinn traktorinn til uppgerðar í ársbyrjun 2019. Vinur Ásgeirs sem býr á Akureyri kom svo með hann í ágúst 2020 er hann átti leið að norðan. Síðast mun vélin hafa verði notuð um 1965, enda var bensínlítrinn þá komin í fimm krónur og gripurinn eyðslufrekur undir álagi. Henni fylgir plógur og stórt skálaherfi, allt heillegt og mögulega starfhæft þó verkefni séu ekki endilega tiltæk hér um slóðir. Mörg tún í Kelduhverfi eiga tilvist sína að þakka þessum grip. Sams konar traktor var um tíma á Þórustöðum á Miðnesi. Hann var um skeið í láni í Miðhúsum og minnast Miðhúsamenn hans sem duglegrar vélar. Sá traktor var síðar um tíma hjá Óskari í Móakoti en á þessari stundu er ekki kunnugt hvað um hann varð.

Strax var hafist handa að rífa gripinn. Traktorinn er þannig byggður að grind er heilsteypt og því er einungis ryð á yfirborði. Vélin hafði staðið óhreyfð í rúma hálfa öld. Þó gekk furðu vel að ná henni sundur og koma aflvél úr. Þó tók um mánaðar þolinmæði að fá stimpla vélarinnar lausa. Svipað gildir um ventlastýringar. Þá nýttist þeim feðgum Ásgeiri og Guðna reynsla Guðna Ingimundarsonar sem gat glímt við eina vél um margra vikna skeið áður en hún fékkst til að snúast. Þeir þurftu að marghita blokk og olíubera en að endingu gagnaðist slaghamar og eikarbútur. Legur í sveifarási snúast liðlega og innra ástand vélarinnar þannig að mögulegt verður að koma henni í gang. Eftir er að láta sandblása burðarvirki og koma búnaði í gangfært horf. Vélin er útbúin til vinnu í flögum og að brjóta land til ræktunar því hún er á járnhjólum með miklum göddum. Á sumar vélar af þessari gerð voru boltuð gúmmí á afturhjól eða sett undir hefðbundin traktorsdekk svo aka mætti þeim um tún og vegi. Ekki er ólíklegt að heyrast muni ganghljóð frá aflvél traktorsins áður verkinu slotar.

Hörður Gíslason

Ari kemur með gripinn að norðan.

Feðgarnir glíma við vél Nallans.

Ásgeir bauð Siggu sinni á rúntinn niður að Útskálum.