Mannlíf

Allir hafa áhuga á pólitík vegna þess að hún er umgjörð um lífið sjálft og snertir alla
Laugardagur 18. september 2021 kl. 07:52

Allir hafa áhuga á pólitík vegna þess að hún er umgjörð um lífið sjálft og snertir alla

– Oddviti Samfylkingar í Suðurkjördæmi notaði sumarfríið til að hitta kjósendur

Oddný G. Harðardóttir hitti marga í kjördæminu í sumarfríinu en hún segir að heilbrigðismálin og Keflavíkurflugvöllur séu stærstu málin á Suðurnesjum. Oddviti Samfylkingar í Suðurkjördæmi er sjálf með stutta afrekaskrá í eldhúsinu en þar kemur skólamaðurinn og bóndi hennar, Eiríkur Hermannsson, sterkur inn.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við Eiríkur ferðuðumst aðallega um Suðurland og vorum á tjaldsvæðum í kjördæminu; Eyrarbakka, Selfossi, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri og Laugalandi. Við fórum í gönguferðir og stutta hjólatúra, heimsóttum náttúruperlur í nágrenninu og ræddum við fólkið á tjaldsvæðunum, stundum um pólitík. Það var gaman.“

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

„Hvað veðrið var dásamlegt á Kirkjubæjarklaustri og reyndar á Norður- og Austurlandi oftar en á Suðurlandi.“

Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

„Akureyri og Hrunamannahreppur eru í sérlega miklu uppáhaldi.“

Hver er helstu afrek þín á heimilinu í hverri viku?*

„Afrekaskráin mín er afskaplega stutt á því sviði enda eiginmaðurinn heimavinnandi.“

Uppáhaldsmatur?

„Kalkúnn að hætti Eiríks, mannsins míns.“

Hver er þinn styrkur í matreiðslunni?

„Afi, afi komdu strax – amma ætlar að fara að elda,“ sagði elsta barnabarnið mitt einu sinni og hafði enga trú á mér í eldhúsinu. Ég sé sem sagt ekki oft um að elda – en ef það lendir á mér þá vil ég helst henda ýsu í pott og hafa  íslenskar kartöflur og smjör með. Held að það teljist ekki eldamennska.“

Notaðir þú sumarfríið eitthvað til að undirbúa kosningabaráttuna?

„Já, heilmikið. Einkum með samtölum við fólkið í kjördæminu; bændur, atvinnurekendur og launþega. Ég vildi heyra frá þeim beint hvað þeim finnst mikilvægast að breytist eftir kosningar. Heilbrigðismálin voru nefnd af nærri öllum sem ég talaði við.“

Hver er tilfinningin fyrir komandi alþingiskosningum og kosningabaráttunni?

„Kosningabaráttan okkar hefur verið skemmtileg. Við notum „maður á mann“ taktíkina og henni fylgir oft skemmtileg samtöl um pólitík, jafnvel við fólk sem segir í upphafi samtals að það hafi ekki áhuga á pólitík. Í ljós kemur að allir hafa áhuga á pólitík vegna þess að hún er umgjörð um lífið sjálft og snertir alla.“

Hver eru stærstu málin fyrir Suðurnesin sem þú setur í forgang?

„Heilbrigðismálin með stuðningi við HSS, nýrri heilsugæslu í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Efling Keflavíkurflugvallar sem miðstöð farþegaflugs í Norður-Atlantshafi, fjölga lögreglumönnum, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið með nýsköpun og þróun og ýta undir frumkvöðlastarf ásamt því að efla menntastofnanir. Betri kjör öryrkja og eldra fólks líkt og á landsvísu og betri þjónusta við eldra fólk í samstarfi við sveitarfélögin. Bætt kjör barnafólks með óskertum barnabótum að meðallaunum. Mæta álagi á stofnanir vegna íbúafjölgunar síðustu ára. Þetta eru auðvitað allt mál sem búið er að tala mikið um og hafa verið á loforðalista flestra flokka fyrir hverjar kosningar en minna um efndir. Við erum hins vegar búin að stíga skrefinu lengra og greina algjörlega hvernig við viljum fjármagna þessar aðgerðir og tímasetja.“

Hvert er draumaríkisstjórnarsamstarf þitt?

„Ríkisstjórn sem lætur hugsjónir og draum jafnaðarmanna rætast, um velferðarsamfélag sem er fyrir alla. Ríkisstjórn skipuð flokkum frá vinstri að miðju. Við eigum mesta samleið með slíkum flokkum en getum ekki starfað með Sjálfstæðisflokki eða Miðflokki.“