Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Alger sökker fyrir alveg glötuðum þáttum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 13. júní 2020 kl. 09:27

Alger sökker fyrir alveg glötuðum þáttum

Skúli Björgvin Sigurðsson keyrði um á Honda Civic, árgerð 1991, dökkblárrri með fullt af hestöflum, spoiler og álfelgum. Þetta var fyrsti bíllinn hans. Í dag ekur hann um á rútu en á einnig Toyota Hilux og dreymir um alvöru amerískan pallbíl. Ástæðuna segir hann dvöl í Oklahoma um árið. Skúli gaf sér tíma frá eldamennskunni, þar sem hann eldaði Mac’N’Cheese og pulsur, og svaraði nokkrum spurningum í Netspjalli Víkurfrétta.

– Nafn:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skúli Björgvin Sigurðsson.

– Árgangur:

76ers (1976).

– Fjölskylduhagir:

Full House, þrjár dætur, Birta, Emma og Lilja. Einn sonur, Alexander, og eiginkona ... líka bara ein.

– Búseta:

Ég bý í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Sonur Sigurðar Tómas Garðarssonar frá Höskuldarkoti úr Njarðvíkinni og Guðfinnu Sesselju Skúladóttir úr Garðshornsætt Keflavíkurmegin. Þau eru svona Romeo og Juliet par án harmleiks. Ég er svo alinn upp beggja vegna gömlu bæjarmarka Reykjanesbæjar, sleit barnskóm Keflavíkurmegin en hef haldið mig í Njarðvíkurlandi síðan (sunnan Aðalgötu).

– Starf/nám:

Starfa sem flugvirki hjá Icelandair.

– Hvað er í deiglunni?

Fagna og njóta komandi sólarsumri og öllu sem því fylgir.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Ég var þessi týpíski B-nemandi held ég. Náði öllum prófum enn var voðalega mikið að flýta mér. „Þolinmæðin þrautir vinnur allar“ fékk ég nokkru sinnum í „skorkortið“ frá kennurum.

– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Þau byrjuðu nokkuð vel, fór í gegnum gömlu góðu busunina (slorkar og koss á svínshöfuð). Í miðju kafi fór ég svo í gegnum þungan lærdómstíma sem komu skóla ekkert við. Endaði samt allt gríðarlega vel.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Það var ekkert sérstakt planað en pabbi var alltaf svalur með sitt resumé sem útvarpsmaður (Lög ungafólksins) umboðsmaður hljómsveita, torfærukappi, fararstjóri og framkvæmdarstjóri.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Honda Civic 1991, dökkblár með fullt af hestöflum , spoiler og álfelgum.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Ég ek um á rútu og svo Toyota Hilux.

– Hver er draumabíllinn?

Dvöl í miðríkjum Oklahoma hér um árið hafa haft þau áhrif að ég vill bara einhvern huggulegan pallbíl (pick-up).

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

Lego. Hannaði heilu hverfin með Lego hér um árið.

– Besti ilmur sem þú finnur:

Sjávarloftið finnst mér alltaf svakalega gott, þessu komst ég að þegar ég bjó í Oklahoma og komst lítið í tæri við slíkt (byrjaður að hljóma eins og Falur Harðar með sitt Charleston).

– Hvernig slakarðu á?

Ég tylli mér bara í sófann eða halla mér og er ansi snöggur að komast í algera slökun þegar tækifæri gefst.  Þessum tækifærum hefur hinsvegar snarlega fækkað síðustu ár.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Hlustaði mikið á það sem var bara í útvarpi en var mikill rapp/RnB-maður. Lag sem datt í hausinn á mér og man vel þegar ég hugsa til þessa tíma er Rebirth of Slick með Digable Planets, Feel Good-lag.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

90’s Þar var farið vítt og breitt, þar ber helst að nefna Nirvana, Smashing Pumpkins, Dr Dre, Fugees, Pearl Jam, Metallica, 2Pac, Arrested Development, U2. Heljarins smekkur þar á ferð.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Ég er slakur að finna nýja tónlist og ég uppgötva tónlist mikið hjá vinum mínum Palla K og Jonna Norðdal. Þeir eru duglegir að grafa upp tónlist sem ég svo heyri hjá þeim og í kjölfarið virðist þá falla í kramið hjá mér. 

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Bítlarnir voru vinsælir og svo þessi hefðbundnu íslensku dægurlög voru mikið spiluð hjá mömmu og pabba. Pabbi á plötusafn uppá einhverjar hundruðir platna eftir sína gömlu daga og hans smekkur hefur breyst með árunum meðfram aldri. Gamli spilar þessa dagana á fiðlu og hlustar á klassík.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Nei, því miður en ég er búinn að eiga þrjá gítara, selja tvo þeirra og einn er núna heima. Sverrir Leifsson, flugmaður, smiður og lífskúnster, lofaði mér einhverntímann kennslu á Fender-inn. Ég bíð spenntur.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Ég horfi þó nokkuð á sjónvarp og þá helst þætti. Er alger sökker fyrir alveg glötuðum þáttum en upp úr standa þeir sem eru byggðir á sannsögulegum atburðum eða þeir sem eru „plausible“ (gætu í alvöru gerst). Breaking Bad líkast til efstur þar á lista.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Ég get alveg misst af öllu og kippi mér ekkert sérstaklega upp við það þessa dagana, t.d. að missa af leik með Man Utd. Hins vegar kemur svo flott efni sem ég vil sjá sem fyrst líkt og „Last Dance“.

– Besta kvikmyndin:

Pulp Fiction.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

James Patterson.

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Smíða, laga, syngja. Reyndar er stöngin ansi lágt niðri í því síðast nefnda.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Þjóðarréttur fjölskyldunnar, Mac’N’Cheese og pulsur!

– Hvernig er eggið best?

Með honum Benedict.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Á tímum kannski full bjartsýnn (sbr. sólarsumarið hér fyrr í þessu viðtali).

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Dónaskapur og leiðinlegt/neikvætt hugarfar.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

Því morgni eftir orðinn dag, enginn gengur vísum að.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Mamma og pabbi að skutla mér í pössun hjá ömmu Laddý í „kotið“ um u.þ.b. fimm, sex leytið á morgnanna áður enn þau fóru í vinnu við skreið hérna um árið.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Ekki málið ...

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

5. nóvember 1955.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Old School.

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?

Myndi líkast til ganga í skrokk á Michael Jordan og semja eitt ár í viðbót við Chicago Bulls. Spila 18 holur með vindil og viskí og loka deginum með því að kaupa mér einhvern huggulegan pallbíl.

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?

Obama með góðar inhouse forsetasögur, Seinfeld halda uppi hlátri með góðum sögum og  Kurt Cobain á gítarinn plús bransasögur. Frúin fengi líkast til að fljóta með.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Þetta fer líkast til í bankann sem eitt af þeim erfiðari, svo mikið er ljóst – en um leið hef ég það í huga að þetta gæti verið töluvert verra.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Já, klárlega! Besta sumar ever segi ég alltaf.  Heppnaðist í fyrra nokkuð vel eftir mögur ár þar á undan.

– Hvað á að gera í sumar?

Ég mun skutlast eitthvað út á land við hvert tækifæri. Fæ loksins smjörþefinn af fótboltamótum sem væntanlega koma til með að vera nokkur á næstu árum.

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Vanalega er haldið þar sem hitastigið er reglulega í plús tuttugu gráðum. Þetta árið þurfa þessar tíu til sextán íslensku gráðurnar að duga og ég missi engan svefn yfir því.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

... til Madagascar, mig langar að kanna hvort þessi dýr þarna geti bara í raun og veru talað, já og svo kannski líka aðeins á sundlaugarbakkann.