bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

Alexandra söng og Jón sýndir myndir í St. Pétursborg
Sunnudagur 6. október 2019 kl. 08:43

Alexandra söng og Jón sýndir myndir í St. Pétursborg

Þann 21. ágúst voru haldnir tónleikar sem báru nafnið „Russian Souvenir: Introducing Iceland“ í Kamennoostrovskiy-kastala í St. Pétursborg í Rússlandi. Fram komu Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, Gerður Bolladóttir, sópransöngkona, og Kjartan Valdemarsson, píanóleikari.

Á efnisskrá tónleikanna voru rómantísk tónverk eftir Gerði Bolladóttur við ljóð íslenskra skálda og aríur, dúett og kór úr óperunni „Skáldið og Biskupsdóttirin“ eftir Alexöndru Chernyshovu við líbrettó Guðrúnar Ásmundsdóttur.

Píanóleikur var í höndum eins af okkar bestu píanóleikara, Kjartans Valdemarssonar. Hlutverk Hallgríms Péturssonar söng bass-barítón söngvari frá Moskvu, sólóisti í Vishnevskaya Óperu Stúdíó, Sergei Telenkov, og söng hann hlutverk sitt á íslensku.

Frumkvöðull að þessum tónleikum var tónskáldið og sópransöngkona Alexandra Chernyshova. Hún hefur verið búsett á Íslandi í sextán ár og býr ásamt fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ. Alexandra er ættuð frá Rússlandi en er núna íslenskur ríkisborgari. Fyrir nokkrum árum fékk Alexandra þá hugmynd að gaman væri að mynda tónlistarmenningarbrú „Russian Souvenir“ á milli Rússlands og Íslands. Þetta verkefni hefur staðið í fjögur ár og á þeim tíma hafa verið settir upp fimmtán viðburðir bæði hér á Íslandi og í Rússlandi.

Fjölmiðar voru mjög áhugasamir um tónleikana og komu viðtöl við listamenn í útvarpi og sjónvarpi.

Á tónleikunum 21. ágúst var einnig haldin ljósmyndasýningin „Iceland - beyond expectation“ eftir Jón R. Hilmarsson sem nýlega gaf út sína þriðju ljósmyndabók. Jón var einnig með ljósmyndasýningu á opnunarhátíð „Nordic Weeks“ í St. Pétursborg þann 13. september sl.

„Tónleikar í Pétursborg voru yndislegir, fullt hús af áhugasömum áhorfendum sem voru mjög þakklátir að fá að kynnast íslenskri tónlist. Meðal áhorfenda voru þekktir rússneskir tónlistarmenn og listamenn sem sögðu eftir tónleikana að þeir væru hissa á ríkri menningu, tónlistinni og ljóðum sem voru sérstaklega þýdd yfir á rússnesku og sýnd á tjaldi á meðan á flutningi stóð. Áhorfendur voru ekki að búast við svona flottum tónleikum og ljósmyndasýningu sem er sannarlega gott veganesti fyrir framhald þessa verkefnis - Russian Souvenir,“ segir Alexandra Chernyshova.