Nettó
Nettó

Mannlíf

Mánudagur 27. ágúst 2001 kl. 09:46

Aldrei of seint að læra

Margir Suðurnesjamenn hafa látið drauminn rætast um frekari menntun í öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Deildin hefur starfað í mörg ár og hafa langflestir kennaranna mikla reynslu í fullorðinskennslu. Það vekur athygli að enn fjölgar námsmöguleikum deildarinnar. Námsgreinar sem kenndar eru í dagskóla eru æ oftar einnig í boði kvöldskólans, sem
gerir vinnandi fólki kleift að stunda nám og vinnu samtímis. Við leituðum uppi nokkra nemendur öldungadeildarinnar og forvitnuðumst um nám þeirra.

Halla Tómasdóttir, launafulltrúi;
Það tók mig mörg að byrja í öldung, ég hélt ég væri of gömul. Mig hafði alltaf langað til að læra meira og loks tók ég af skarið og fór í skólann. Nú finnst mér mesta syndin að hafa ekki farið fyrr af stað því þetta hefur gefið mér svo mikið. Ég fór hægt af stað, byrjaði í tveimur fögum og lærði allt frá grunni. Maður lærir allt öðruvísi sem fullorðinn því nú læri ég fyrir sjálfa mig og legg mig meira fram við námið. Ég er kröfuhörð og vil fá góðar einkunnir, það er ekki nóg að ná prófi lengur. Ég hef verið í kvöldskólanum og einnig tekið utanskóla nokkur fög. Í fyrstu stefndi ég ekki að neinu sérstöku heldur vildi ég bara auka þekkingu mína en þegar ég sá að ég gat þetta þá fór boltinn að rúlla og metnaðurinn jókst. Nú stefni ég á stúdentspróf og það er innan seilingar.
Það gengur ágætlega að samræma vinnu og skóla ef ég tek ekki of mörg fög. Kostir þess eru ótvíræðir að eiga aðgang að öldungadeild FS því þá getur fólk bæði unnið og stundað nám. Ég hef grætt hellings visku af náminu. Svo eru kennarar öldungadeildar bæði skemmtilegir og hjálpsamir.

Bergþóra Vilhelmsdóttir, sjúkraliði;
Ég hef verið af og til í öldung síðastliðin 6 ár og stefni að stúdentsprófi næsta vor. Mér finnst kostir þess að stunda nám í kvöldskóla margir. Fólk fer í öldungadeild til þess að læra og láta drauma sína rætast. Maður eignast marga góða vini þar og sumir sækja í félagsskapinn. Það eru ekki allir tilbúnir að læra á daginn með unglingunum, alla vega ekki fyrst til að byrja með, þá er
gott að vera með öðrum öldungum. Ef fólk hefur áhuga og möguleika á því að fara í skóla, þá á það að gera það, í stað þess að vera alltaf að bíða eftir „rétta tækifærinu“.

Bragi Páll Sigurðsson, verslunarmaður;
Mér hefur gengið vel að samræma vinnu og nám í öldungadeild því ég á mjög skilningsríka vinnuveitendur. Svona nám krefst þess að maður skipuleggi tímann sinn og nota ég kvöldin og helgar til þess að læra heima. Fyrst fór ég í öldung til þess að hafa eitthvað fyrir stafni. Þegar ég sá að mér gekk vel þá fylltist ég metnaði og stefni nú á að klára stúdentspróf um jól. Kannski verður framhald á námi mínu eftir það, það er aldrei að vita. Stúdentsprófið verður alla vega lykill að frekara námi ef ég vil. Námið skilur meira eftir núna, því maður hefur þroskann til þess að hlusta og man betur það sem sagt er í kennslustund.Það skapast einnig oft skemmtilegur
mórall í tímum þegar nemendur og kennari ná vel saman. Þetta verður næstum því eins og að vera í góðum vinahóp.

Þórhallur Ingason, húsasmiður;
Mér finnst ekkert vandamál að stunda vinnu og nám um leið, maður verður bara að skipuleggja tímann sinn. Ég lýk meistaranámi í húsasmíði á komandi jólum. Ég er alveg sérstaklega ánægður með öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það er sama hvar maður kemur að þessum skóla og starfsfólki hans, úrvalsskóli! Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að kennarar öldungadeildar eru sérstaklega hjálpsamir og áhugasamir um nemendurna, svo eru þeir líka skemmtilegir. Þeir koma vel undirbúnir og leggja mikið á sig fyrir okkur nemendurna. Maður finnur það þegar maður kemur inn í FS að þar er góður mórall og fólki líður vel þarna. Ég er kröfuharður nemandi og hef samanburð á framhaldsskóla hér og á höfuðborgarsvæðinu og það er ólíkt betra að
stunda nám í FS.

Birna Þórðardóttir, nemi;
Í fyrstu fannst mér fjarlægt að læra eitthvað. Mér fannst ég orðin of gömul en ég sé það núna að maður er aldrei of gamall til að læra. Ég útskrifaðist sem stúdent síðastliðið vor og ætla að halda áfram að læra nú í haust. Iðnskóli á höfuðborgarsvæðinu er næsti áfangastaður því ég er
að fara í dagskóla að læra tækniteiknun sem er þriggja ára nám.Ég byrjaði í öldung með því að ögra sjálfri mér og valdi erfið fög en þegar ég sá að ég náði þeim þá fannst mér allt í lagi að halda áfram. Ég kom mér fljótt inn á braut og setti mér markmið.Þetta var allt léttara en ég hélt í fyrstu. Þetta er skemmtilegt en einnig krefjandi. Skólinn hristir nemendur saman og allir eru að stefna að því sama í öldung. Áhugi nemenda er mikill og ég eignaðist þvílíka félaga þar. Eftir þetta
allt saman finnst mér núna leikur að læra.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs