Mannlíf

Ævintýri sem endaði vel
Ingimar Sumarliðason er einn af frumkvöðlum í ferðamennsku á Suðurnesjum.
Þriðjudagur 21. maí 2019 kl. 16:35

Ævintýri sem endaði vel

Það héldu sumir að Ingi putti væri klikkaður þegar hann veðjaði á ferðamenn og sumarhúsagistingu rétt við bæjarmörk Sandgerðis árið 2002. Á þeim tíma var hefð fyrir því að íslenskir ferðamenn gistu í sumarhúsum á Suðurlandi eða í Borgarfirði en ekki á Suðurnesjum. Tíminn átti eftir að leiða í ljós að hugmynd Inga var ekki svo galin.

Maðurinn heitir fullu nafni Ingimar Sumarliðason en er alltaf kallaður Ingi putti. Við tókum hús á manninum bjartsýna og spurðum fyrst hvers vegna hann hefði þetta gælunafn. „Þegar ég var lítill þá kallaði pabbi alltaf á mig með þessum hætti „komdu hérna putti minn“. Jú, jú ég er með alla puttana tíu ennþá á mér svo það var ekki þess vegna sem ég fékk þetta gælunafn,“ svarar Ingi og hlær þegar hann er spurður út í þetta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrstu gestirnir voru brúðhjón frá Noregi
„Þegar ég byrjaði þá var akkúrat ekkert fyrir ferðamenn á svæðinu. Þá voru kannski tvö hótel og lítil önnur umsvif. Ég veit ekki af hverju ég veðjaði á ferðamenn, kannski var það ævintýraþrá. Þetta átti aldrei að verða fullt starf, bara búbót en þróaðist yfir í fullt starf frá 2014. Þó að menn séu núna að tala um einhverja lægð í ferðamennsku á Íslandi eftir að WOW hætti að fljúga, þá finn ég það ekki hér hjá mér í bókun í Nátthaga. Jú, jú, maður var álitinn kolklikkaður á þeim tíma sem ég byrjaði í þessu ævintýri. Þessi hús voru fyrst og fremst hugsuð fyrir Íslendinga í upphafi en samt voru fyrstu gestirnir norsk brúðhjón 28. júlí árið 2002. Hugmyndin kviknaði eftir að ég hafði sjálfur verið að ferðast og gist í svona sumarhúsi úti á landi. Það þarf alltaf einhverja ruglaða til að breytingar verði. Hér í Sandgerði var bara fiskur og aftur fiskur. Ég átti Þóroddsstaði en var trillukarl og ætlaði fyrst að hafa sumarhúsin fyrir neðan húsið, niður við sjó en fékk ekki leyfi til þess vegna flóðahættu. Þetta var brösug byrjun og miklar tafir hjá byggingarfulltrúa þar til loksins leyfi fékkst til að byggja nokkur sumarhús fjær ströndinni.“

Frístundasvæði í Nátthaga varð til
„Svo þróuðust málin á þann veg að bæjaryfirvöld ákváðu að búa til frístundasvæði í Nátthaga. Hér þarf samt að ríkja náttúruvernd vegna fjölskrúðugs fuglalífs. Almenningur gat byggt sér sumarhús hér og fleiri skemmtilegar hugmyndir fæddust sem virðast hafa sofnað í kerfinu. Gamla vigtarhúsið í Sandgerði var flutt í Nátthaga og átti að verða þjónustuhús fyrir tjaldsvæðið. Ég tók það á leigu í upphafi en keypti það svo af þeim. Árið 2002 var ég komin með þrjú hús en í dag eru þau fimm. Það eru fjögur ár síðan þau urðu fimm talsins. Ég endurbyggði sjálfur gömlu vigtina og stækkaði hana. Einnig byggði ég þrjú hús til viðbótar frá grunni. Ég leigði fyrst fast þessi fyrstu hús þegar fáir túristar voru og stóð þannig undir kostnaði en þetta var basl í byrjun. Ég var í mörg ár á hnjánum að skúra gólf og þreif öll húsin en þvotturinn er heilmikill sem fylgir þessu. Þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum og það þurfti þrautseigju til að lifa af fyrstu ellefu árin en eftir að ég fór inn á vefinn árið 2013 með allar bókanir hjá mér, inn á booking.com, þá snarjókst traffíkin hjá mér.“

Tímamót hjá Inga
„Í dag eru 99% útlendingar sem gista í Nátthaga. Nú er ég loksins að uppskera allt streðið og gat ráðið til mín manneskju til að þrífa húsin fyrir tæpum tveimur árum í hálft starf. Það er þvílíkur munur en ég sé samt ennþá um allan þvottinn. Þetta eru yfirleitt einnar nætur gistingar, erlent fólk sem er að fara í flug eða koma hingað til lands. Nú er nýting húsanna flesta mánuði yfir 90% allt árið. Í dag er þetta fyrirtæki hjá mér í fullum rekstri og gengur mjög vel. Þrátt fyrir það ætla ég að segja þetta gott enda orðinn sjötugur. Nú þykist ég orðinn gamall maður og finnst tími til kominn að hætta. Ég er mjög líklega búinn að selja sumarhúsin til íslenskrar manneskju sem mun reka gistinguna áfram með svipuðu sniði. Ég óska henni farsældar í þessu frábæra starfi en ég hef haft mjög gaman af því að kynnast öllum þessum ferðamönnum. Öll þessi ár hafa verið erilsöm en óskaplega skemmtileg því maður kynnist svo mörgum hliðum á mannlegri tilveru.“

Bæjaryfirvöld áttu fallegan draum um Nátthaga
„Ég er voðalega stoltur af bæjaryfirvöldum í sambandi við vegamál hérna í Nátthaga því nú eru komin tvö ár síðan þeir hefluðu vegina hérna síðast og þar áður voru það þrjú ár. Vegurinn sem bærinn á að sjá um í Nátthaga er hræðilegur. Bæjaryfirvöld mættu stórbæta sig. Vegagerð ríkisins fær mikla gagnrýni í þjóðfélaginu en þeir hafa staðið sig vel í Nátthaga og séð um sinn part af veginum. Þegar ég byrjaði á sínum tíma hér út frá voru allir vegir hér undirbúnir fyrir bundið slitlag, það var allt klárt þá og er í raun ennþá. Því miður kom kreppa árið 2008 og hún virðist halda velli. Það væri gaman núna að sjá nýja bæjarstjórn Suðurnesjabæjar taka til hendi í Nátthaga og sjá sóma sinn í að bæta vegina hérna. Í dag er vegurinn holótti ekki góð bæjarkynning fyrir þá 5000 ferðamenn sem gista í Nátthaga á ári.“

Hvað er framundan hjá Inga?
„Nú langar mig sjálfum að taka upp veiðistöngina og ferðast eitthvað. Ég hef ekki tekið mér frí í tvö og hálft ár. Ég hugsa að þetta verði voðalega skrýtið, að hætta að vinna og vera ekki að bíða eftir næstu gestum í Nátthaga. Langflestir gestir hafa sýnt ánægju sína af veru sinni í Nátthaga. Þeim fannst nálægðin við sjóinn og kyrrðin vera aðalaðandi, heitur pottur og að geta eldað sjálfir, það líkar þeim sem gistu hjá mér.“

[email protected]