Mannlíf

Að ferðast með vinum og fjölskyldu innanlands gerir öll ferðalög betri
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 15. ágúst 2020 kl. 08:51

Að ferðast með vinum og fjölskyldu innanlands gerir öll ferðalög betri

Otti Rafn Sigmarsson fór með fjölskylduna í tvær stórar ferðir þetta sumarið. Í fyrra skiptið var farið á Vestfirði og í seinna skiptið var fjölskyldan bæði á suður- og vesturlandi, samtals í rúmar þrjár vikur. Otti svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttir og deilir myndum úr ferðalaginu með lesendum.

— Hvaða ferðamáta notaðir þú?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég nota bæði hjólhýsi og tjald en það fer svolítið eftir því hvert er verið að fara hvað er notað hverju sinni.“

— Var ferðalagið um landið skipulagt fyrirfram eða var fríið látið ráðast af veðri og vindum?

„Ferðin á Vestfirði var skipulögð fyrirfram en seinni hlutinn núna í lok sumars fór að mestu eftir veðri. Það stóð alltaf til að renna austur á land en veðrið þar var ekkert sérstakt á meðan við vorum á þvælingi þannig að það bíður betri tíma.“

— Hvaða viðkomustaður var áhugaverðastur?

„Dynjandi var áhugaverðastur fyrir þær sakir að við heimsóttum hann í byrjun júní og þá var enginn þar, ekki sála. Það var bæði öðruvísi og frábær upplifun.“

— Eitthvað sem kom skemmtilega á óvart?

„Það kom okkur svolítið á óvart að hafa gist í fjórar nætur í Vestmannaeyjum þar sem það var logn alla dagana. Sennilega eru þeir dagar skráðir í einhverjar sögubækur núna.“

— Fannst þér margir vera á ferli á þeim slóðum þar sem þú varst á ferðinni?

„Í Vestfjarðarferðinni í byrjun júní var nánast enginn á ferðinni, hvorki Íslendingar né erlent ferðafólk. Núna um síðustu mánaðarmót var hinsvegar ekki þverfótað fyrir fólki, sama hvar maður kom, jafnvel fleira fólk en síðasta sumar.“

— Hver er kosturinn við það að ferðast innanlands?

„Það er mun auðveldara að ferðast með vinum og fjölskyldu innanlands sem gerir öll ferðalög betri. Svo er líka ákaflega gaman að hitta vini og vandamenn hér og þar.“

— Hefur þú ferðast mikið innanlands? Áttu þér uppáhaldsstað sem þú sækir oft eða er eitthvað sem þig langar virkilega að skoða?

„Ég hef alla mína tíð ferðast mikið og þar kemur ekki upp helgi yfir sumartímann þar sem ég er heima hjá mér. Þórsmörk á alltaf sérstakan sess í mínu hjarta og þangað kem ég á hverju ári. Hálendið heillar líka og það get ég skoðað endalaust.“

— Á eitthvað að ferðast meira núna í haust?

„Já, ég ætla að taka eina viku á hálendinu núna í lok ágúst og svo geri ég ráð fyrir að vera á einhverju helgaflakki í september ef veður og Covid leyfir.“

— Hvernig er COVID-19 ástandið að leggjast í þig um þessar mundir og hverjar finnst þér horfurnar vera inn í haustið og veturinn?

„Ástandið er orðið afskaplega þreytt og þessi skref afturábak núna síðsumars eru ekki til þess að laga það. Ég er samt nokkuð bjartsýnn á þetta líði hjá núna án þess að verða eins alvarlegt og í vor og ég held að fólk sé líka betur undir það búið. Komandi vetur verður samt bæði skrítinn og erfiður með nýjum samkomureglum en ég held að við sem samfélag munum bara koma sterkari út úr þessu þegar yfir líkur.“