Íþróttir

„Það var nauðsynlegt að ná í þessi þrjú stig“
Njarðvíkingar með skot að marki Völsungs. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 27. júní 2020 kl. 12:59

„Það var nauðsynlegt að ná í þessi þrjú stig“

segir Mikael Nikulásson, þjálfari Njarðvíkinga, eftir sigurinn á Völsungi

Eftir slæmt tap í Mjólkurbikarnum helgina fyrir Íslandsmót mættu Njarðvíkingar ákveðnir til leiks gegn Völsungi í fyrstu umferð og unnu góðan sigur heima, 3:1. Njarðvíkingar fara á Selfoss í dag og eiga leik klukkan 14:00. Víkurfréttir heyrðu í Mikael eftir sigurinn gegn Völsungi.


– Karakter að koma svona til baka eftir leiðindatap í bikarnum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Já, menn rifu sig bara upp og við spiluðum nokkuð vel. Á pappírum eigum við að vinna Völsung en það er ekkert öruggt í þessari deild. Ég er mest ánægður með að leikmenn sýndu karakter og lönduðu þremur stigum. Það eru auðvitað gríðarlega erfiðir leikir framundan á móti öllum bestu liðunum og á útivelli svo það var nauðsynlegt að ná í þessi þrjú stig.

– Heilt yfir hvernig metur þú frammistöðuna í síðasta leik?

Liðið small ágætlega saman í síðasta leik, vantaði reyndar Marc McAusland sem var í leikbanni, en svo er spurning hvernig framhaldið verður. Menn eru eitthvað aðeins tæpir á meiðslum og annað en vonandi verða allir klárir á laugardaginn þó ég sé ekkert svakalega bjartsýnn á það. Við erum með ágæta breidd en megum ekkert við því ef lykilmenn meiðast, ekki frekar en önnur lið. Við erum búnir að vera að vinna í að stækka hópinn síðustu vikur út af því að það er spilað stíft, miklu stífa en önnur sumur. Menn geta og munu lenda í meiðslum og þá þurfum við að hafa stóran hóp, ég tel að við höfum það umfram mörg lið.

– Selfoss úti í næsta leik, á að sækja þrjú stig?

Hörkuleikur úti og menn þurfa að gera enn betur ef við eigum að fá eitthvað út úr honum. Við reynum að sækja til sigurs í hverjum einasta leik, stundum heppnast það og stundum ekki. Það er stefnan að fara á Selfoss og reyna að gera góða hluti.