Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

„Okkar hlutverk er að láta Keflvíkinga verða ástfangna af fótbolta“
Samstarf þeirra Eysteins og Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar hefur skilað góðum árangri. Þeir voru m.a. valdir þjálfarar annars þriðjungs Lengjudeildarinnar af vefmiðlinum Fótbolti.net. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 9. október 2020 kl. 08:16

„Okkar hlutverk er að láta Keflvíkinga verða ástfangna af fótbolta“

– segir Eysteinn Húni Hauksson, annar tveggja þjálfara Keflvíkinga.

Nú þegar tveimur umferðum í Lengjudeildinni er ólokið er Keflavík í kjöraðstöðu til að komast í efstu deild að nýju. Keflvíkingar eru efstir í deildinni en bæði Fram og Leiknir Reykjavík koma fast á hæla þeirra, aðeins einu stigi á eftir. Keflavík á að auki leik inni gegn Grindavík sem verður leikinn í næstu viku. Víkurfréttir tóku tal af Eysteini Húna Haukssyni til að ræða lokaumferðirnar.

„Þetta er alltaf að sýna sig, eins og í síðasta leik hjá okkur, að þetta er mjög tæpt. Þetta er tími sem reynir á taugar, skipulag og aga. Bæði við og Fram unnum lið sem eru í botnbaráttunni með einu marki og þurftum að hafa töluvert fyrir því,“ segir Eysteinn. „Reyndar ef við skoðum Leiknisleikinn í rólegheitum þá vorum við vaðandi í færum, fengum níu færi fyrir utan markið á fyrsta hálftímanum – á sama tíma voru þeir ekki að skapa neitt.“

Spila fótbolta sem fólk vill horfa á

„Við áttum á þessum tíma þrjú skot í slánna og ég veit ekki hvað – en það þarf að klára þetta, þú ert aldrei öruggur nema þú komir þér í almennilega stöðu og þótt við höfum verið að spila vel þá vantaði að reka endahnútinn á þetta. Við þurfum að nýta færin.“

Public deli
Public deli

Keflavík hefur leikið skemmtilegan sóknarbolta í ár og hefur þegar skorað 57 mörk á tímabilinu. Til gamans má geta þess að samkvæmt gögnum á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands hefur aðeins einu liði tekist að skora fleiri mörk á einu tímabili. Það var árið 2007, þegar liðum var fjölgað í deildinni, að Fjölnir skoraði 61 mark. Þrátt fyrir alla þessa markaskorun endaði Fjölnir í þriðja sæti.

„Allir leikirnir sem við eigum eftir verða erfiðir, leikir Keflavíkur og Grindavíkur eru alltaf eins og bikarúrslitaleikir og þá er ekkert gefið eftir sama hver staða liðanna er. Við þurfum bara að undirbúa okkur vel og vera með liðsheildina klára, vinna okkar vinnu og mæta með toppframmistöðu.

Frans [Elvarsson] meiddist í síðasta leik og við erum að setja upp hvernig við leysum það, þá er spurningarmerki með Kian [Williams] og Ingimundur [Aron Guðnason] er í banni. Þetta er smá púsl en nú búum við vel að því að vera með stóran og sterkan hóp þar sem allir hafa hlutverki að gegna, við erum búnir að nota 27 leikmenn í ár – næstum því þrjú lið.

Við höfum skorað að meðaltali þrjú mörk í leik og viljum spila fótbolta sem fólk vill horfa á. Þess vegna spilum við sókndjarfan leik og leggjum áherslu á að allir séu í toppstandi, það er okkar verkefni núna að fá Keflvíkinga til að verða ástfangna af fótbolta aftur – og það er það sem við ætlum okkur,“ sagði Eysteinn að lokum.