Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

Viss geðveiki en góð æfing
Það er hægara sagt en gert að hlaupa hundrað hringi – en Guðmundur Daði afrekaði það þriðja árið í röð um síðustu helgi. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 3. desember 2022 kl. 07:39

Viss geðveiki en góð æfing

Hlaupagarpurinn Guðmundur Daði Guðlaugsson hljóp 100 hringi á Vetrarbrautinni kringum Keflavíkurvöll síðasta laugardag – þetta var í þriðja sinn sem hann afrekar það.

Það er meira en að segja það að hlaupa hundrað hringi í kringum Keflavíkurvöll. Hver hringur er rétt yfir fimm hundruð metrar, svo vegalengdin ein er rúmir fimmtíu kílómetrar – en það reynir á hugann að hlaupa sama hringinn aftur og aftur.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Er þetta ekki einhver klikkun að hlaupa svona hundrað hringi?

„Þetta er það. Það er viss geðveiki að gera þetta en góð æfing fyrir hausinn að koma sér í gegnum þetta,“ segir Guðmundur þegar Víkurfréttir spurðu hann út í hlaupið um helgina.

„Þetta gekk ljómandi vel. Ég kláraði mína hundrað hringi, þriðja árið í röð.“

Þetta hlýtur að reyna á hausinn.

„Það gerir það. Sérstaklega eins og í gær [laugardag], frá því í hring 56 og þangað til að ég átti svona nítján hringi eftir, var ég nánast einn – svo fór fólk að mæta aftur. Þetta var í kringum hádegi og fólk var að fara heim til að fá sér hádegismat, sá tími reyndi svolítið á hausinn.“

Guðmundur segist hafa verið á hlaupum í rétt tæpa fjóra tíma. „... en ég stoppaði nokkrum sinnum til að næra mig og spjalla við fólk, þannig að í heildina tók hlaupið rétt rúmlega fjóra tíma.“

Og hver er vegalengdin þegar búið er að taka þetta saman?

„Þetta endaði í 51 kílómetra samkvæmt mælingu.“

Konan kom honum á óvart

Helena Ösp Ævarsdóttir, eiginkona Guðmundar, og Júlía, dóttir þeirra, hvöttu sinn mann áfram. Júlía sýndi einnig efnilega tilburði á hlaupabrautinni.

Guðmundur Daði hefur í gegnum tíðina safnað fyrir Píeta-samtökin þegar hann tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu en síðustu ár hefur hann fyrst og fremst notað þetta hlaup til að þjálfa hausinn í sér.

„Það var líka markmiðið í ár, að þjálfa hausinn á mér, en svo þegar ég var búinn með hlaupið þá segir konan mín mér að hún hafi stofnað viðburð á Facebook og gert þetta að einhverskonar styrktarhlaupi fyrir mig. Ég náði ágætis árangri í hlaupunum í sumar og fór í það núna í haust að hafa samband við fyrirtæki og leita eftir styrkjum fyrir framhaldið. Það skilaði nú ekki miklu og ég fékk neikvæðar viðtökur frá fyrirtækjunum. Þannig að konan ákvað að koma mér svona á óvart,“ segir Guðmundur og segir að það hafi komið flatt upp á hann hversu vel söfnunin hafi gengið. „Ég bjóst við að þetta yrði í mesta lagi nokkrir þúsundkallar – en það reyndist nú vera svolítið meira en það.“

Aðspurður um hvað sé framundan segir Guðmundur að stefnan fyrir næsta ár sé svipuð og þetta ár. „Það verða sumarhlaupin hérna heima og svo enda ég þetta með því að fara til Berlínar og taka Berlínarmaraþonið. Ég tók þátt í því í haust, hljóp á 2:39 og lenti í topp eina prósentinu. Ég er helvíti sáttur með það.“

Guðmundur Daði kemur í mark í Berlínarmaraþoninu síðasta haust. Á myndinni til hægri flaggar hann medalíunni og vinnur upp vökvatap eftir hlaupið. Myndir af Facebook-síðu Guðmundar


Blaðamaður hafði veitt því athygli hve margar myndir væru af Guðmundi sem eru teknar á fjöllum en hann er frá Neskaupstað, því lá beinast við að spyrja: Eru maraþonhlaup þín helsta keppnisgrein eða hefurðu verið að taka þátt í utanvegahlaupum líka?

„Þegar ég bjó fyrir austan þá þurfti maður ekki nema að labba út um útidyrnar til að vera kominn upp í fjall – þetta er aðeins öðruvísi hér á Suðurnesjum, fer ekki alveg eins mikið fyrir fjöllunum hérna. Hæsta fjallið í Reykjanesbæ er sennilega hóllinn í Innri-Njarðvík.

Ég hljóp Laugaveginn í fyrra en ég hef fundið það, eins og núna í sumar, að ég er meira í götuhlaupunum – eins og er. Svo kannski eftir þrjú, fjögur ár færir maður sig hugsanlega eitthvað utan vegar.“

Hvað er svo framundan hjá þér?

„Tímabilið hjá mér byrjar sennilega í janúar, þá er hlaupasería hjá FH. Það er haldið þriðju vikuna í janúar, febrúar og mars. Svo byrjar tímabilið af krafti um miðjan maí. Þá byrjar maður að keppa í þessum hlaupum hér fyrir sunnan,“ segir hlaupagikkurinn að lokum en Guðmundur Daði keppir fyrir hönd þríþrautardeildar Njarðvíkur, 3N, enda eru þau hjónin búsett í Njarðvík.

Börkur Þórðarson, hlaupaþjálfari 3N, hljóp samferða Guðmundi hluta leiðarinnar.
Margir félagar Guðmundar frá 3N hlupu honum samferða hluta vegalengdarinnar.
Þótt Guðmundur sé nærri hálfnaður með hlaupið er ekkert hlaupið að því að halda í við hann.