Íþróttir

Veisla framundan
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 4. maí 2022 kl. 08:29

Veisla framundan

Þróttur Vogum leikur í fyrsta sinn í næstefstu deild karla í knattspyrnu

„Bara mjög vel, mikill spenningur. Það er veisla framundan,“ segir Eiður Ben Eiríksson sem tók við þjálfarastöðunni hjá Lengjudeildarliði Þróttar Vogum eftir síðasta tímabil, þegar hann er spurður hvernig tímabilið leggist í hann.

„Það er spenningur í hópnum og félaginu öllu. Loksins erum við að fara að spila leiki í einhverju móti en það er langt síðan við spiluðum alvöru leik, síðast í Lengjubikarnum og svo einn bikarleik um daginn. Það verður bara gaman að byrja þetta og komast í rútínu.“

Það vantar ekki stemmningu í Vogana.

Hvaða væntingar gerið þið til tímabilsins?

„Fyrst og fremst er hugsunin hjá okkur að gera okkur gildandi í þessari deild. Það er augljóst þar sem þetta er í fyrsta skipti sem félagið tekur þátt í Lengjudeildinni og það er númer eitt, tvö og þrjú að festa sig í sessi í deildinni. Vera ekkert að horfa eitthvað lengra en það til að byrja með.

Það verður bara að fara í hvern leik og spila eins vel og við getum – taka gömlu klisjuna „einn leik í einu“ og reyna að njóta þess að spila þessa leiki.“

Ertu sáttur við hópinn sem þú hefur?

„Já, ég er mjög sáttur. Það hafði verið draumur að geta verið lengur með allan hópinn saman en við vinnum með þær aðstæður sem við höfum. Við höfum verið að fá leikmenn seint inn og það er ákveðið púsluspil að koma mönnum í sín hlutverk og þá þurfa aðrir leikmenn kannski að stíga upp.

Ég er mjög ánægður með hópinn en ætla að bæta við fyrir mót. Ég var að fá staðfestingu á að einn leikmaður er frágenginn og mögulega verður annar rétt áður en glugginn lokast, það er ekkert öruggt en í vinnslu.“

Miklar breytingar á hópnum

Eiður segir að liðið komið til með að vera mikið breytt frá síðasta tímabili, margir leikmenn farnir en Þróttarar hafa styrkt hópinn að sama skapi mikið.

„Það er engin spurning að þetta eru góðir leikmenn sem við höfum verið að fá, kannski svolítið öðruvísi leikmenn en voru fyrir. Það verður kannski aðeins öðruvísi holning á liðinu í ár.“

Meira til baka þá?

„Eðlilega en við höfum verið að vinna í að bæta sóknarleik liðsins og að halda boltanum. Svo er bara spurning hversu mikið við komumst upp með það í sumar. Við erum allavega búnir að bæta því í vopnabúrið og getum gert bæði. Þegar upp er staðið er þetta bara spurning um hver skorar fleiri mörk, það man enginn hvernig þau voru skoruð,“ segir Eiður Ben, þjálfari Þróttar Vogum, að lokum.

Bikarinn að fara á loft eftir að Þróttur tryggði sér deildarmeistaratitilinn í 2. deild karla á síðasta tímabili.

Nýir leikmenn Þróttar:

James Dale (frá Víkingi Ólafsvík), Oliver Kelaart (frá Keflavík), Michael Kedman (ekki með leikheimild), Pablo Gallego (frá Pierikos FS), Freyþór Hrafn Harðarson (frá Magna Grenivík), Davíð Júlían Jónsson (kemur á láni frá Leikni R.), Shkelsen Veseli (kemur á láni frá Leikni R.), Arnór Gauti Úlfarsson (kemur á láni frá FH).