Íþróttir

Væntingar alltaf þær að dómarinn geri engin mistök
Kristinn á gólfinu í sínum 800. leik sem var á milli Grindavíkur og Stjörnunnar. VF-myndir/Gunnar Freyr Steinsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 6. febrúar 2021 kl. 07:25

Væntingar alltaf þær að dómarinn geri engin mistök

Körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson dæmdi sinn 800. leik í úrvalsdeild. Segist enn vera að bíða eftir fullkomnum leik.

„Ég er enn að bíða eftir fullkomnum leik, en hann kemur sennilega aldrei. Þessi leikur var þar engin undantekning. Dómarar eyða drjúgum tíma í að greina eigin frammistöðu og eru mjög metnaðarfullir og sjálfsgagnrýnir. Allir leikir eru teknir upp og koma inn á miðlægan gagnagrunn fljótlega eftir leik, þannig að stundum fer maður seint að sofa eftir að hafa legið yfir einhverjum smáatriðum. Þó að frammistaðan í leiknum í Grindavík hafi verið innan marka þá vil ég að við gerum betur,“ segir Kristinn Óskarsson, körfuknattleiksdómari til 32 ára, en hann dæmi sinn 800 leik í úrvalsdeild í vikunni í Grindavík.

Manstu eftir fyrsta leiknum sem þú dæmdir í deildinni?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Já ég man eftir umgjörðinni og upplifuninni. Það var leikur í Ljónagryfjunni, Njarðvík – Tindastóll í október 1988. Mér fannst það ótrúleg upplifun að standa á sama parketi og magnaður oddaleikur milli Njarðvíkur og Hauka hafði farið fram um Íslandsmeistaratitilinn nokkrum mánuðum áður og ég þá uppi í stúku sem áhorfandi. Þetta var fyrsti leikur Vals Ingimundarsonar sem hann spilaði á móti Njarðvík. Njarðvík vann leikinn sannfærandi 99:63 og greinilegt að það var kominn nýr fógeti í bæinn því Teitur Örlygsson skoraði 34 stig en Valur 16. Ég var nítján ára gamall og meðdómari minn í þessum leik var Jón Otti Ólafsson sem mér fannst þá gamall kall, 47 ára. Jotti reyndist mér afar vel á mínum fyrstu árum og er mér mikil fyrirmynd vegna manngæsku sinnar.“

Hvernig kom það til að þú fórst í dómgæslu, varstu ekkert að spila körfubolta?

„Ég lék upp alla yngri flokkana hjá Keflavík og hafði marga góða þjálfara sem allir höfðu áhrif á mig, hver á sinn hátt. Ég var líka eins og margir strákar á þessu árum líka í fótbolta og handbolta. Minn árgangur og árgangarnir fyrir ofan voru sterkir og samkeppnin mikil. Mér gekk ágætlega í yngri flokkunum og varð t.d. Íslands- og bikarmeistari með 2. flokki ári áður en ég byrja sem dómari í úrvalsdeild. Svo eru þetta bara tilviljanir. Byrjaði að dæma í fjölliðamótum og fór svo á námskeið og fór þá allt í einu að fá leiki á niðurröðun frá KKÍ. Deildin var stækkuð á þessu ári og skortur á dómurum þannig að þetta gerðist bæði hratt og óvænt. En grunnurinn að hafa alist upp í boltanum er afar mikilvægur.“

Hvað er eftirminnilegasti leikur sem þú hefur dæmt?

Mér finnst nú alltaf síðasti leikur eftirminnilegastur. En auðvitað hefur margt skrýtið, erfitt og skemmtilegt gerst. Mörg erfið ferðalög út á landbyggðina og að vera veðurtepptur jafnvel dögum saman er eitthvað sem skýtur upp kollinum – en af leikjum þá eru ýmsir úrslitaleikir, t.d.  KR-Grindavík 2009.  Af venjulegum deildarleikjum (af þessum 800) þá langar mig að nefna fjórframlengdan leik í Borgarnesi þar sem annað liðið endaði með þrjá leikmenn inn á og eins leik á Ísafirði þar sem Grindvíkingar mættu bara með fjóra leikmenn, þjálfara og aðstoðarþjálfara. Hinir komust ekki vegna vandræða með flug. Aðstoðarþjálfarinn spilaði leikinn. Marel Guðlaugsson fékk fjórar villur í fyrri hálfsleik og Grindavík sigraði leikinn með Jón Kr. Gíslason sem leikstjórnanda og Friðrik Inga Rúnarsson sem þjálfara.  Rögnvaldur dæmdi með mér.   Svo er erfitt að gleyma þegar Alexander Ermolinski kyssti boltann í horninu áður en hann skoraði þriggja stiga körfu fyrir Borgarnes um árið.

Hvað myndir þú segja við ungan dómara sem væri að byrja?

„Ég er búinn að vera leiðbeina ungum dómurum síðan 1992 og það hefur undanfarin ár skipað stóran stóran sess af mínum lífstíl. Í dag er þjálfunin mikil og í samræmi við væntingar og kröfur leiksins. Ungir dómarar eru eins og annað ungt fólk, vilja árangur og velgengni strax! Til þess þarf að leggja á sig mikla vinnu og ekki allir tilbúnir í það. Mótlæti er hluti af starfinu og mikilvægt að læra að takast á við það. Mest af þeirri gagnrýni sem við fáum er á starfið og frammistöðuna, en ekki okkur sem einstaklinga og mikilvægt að greina þar á milli. Það er langhlaup að verða góður dómari og ég hvet ungt fólk til að sýna þrautseigju og þolinmæði.“

Ísak sonur þinn fór í dómarabúninginn, hvernig var það?

„Mér leist satt best að segja ekki vel á það. Þó ég vilji öllum allt það góða við starfið, sem er t.d. að kynnast mörgu fólki, fá tækifæri til að ferðast og bæta sjálfan sig á öllum sviðum, þá vil ég engum neikvæðu hliðar starfsins sem er rætið umtal, neikvæð athygli og orka og að allir hafi á manni einhverjar skoðanir þó fólk þekki mann ekki neitt eða það sem maður stendur fyrir.

Þegar Ísak var fimmtán ára fór ég yfir þetta með honum og sagði við hann að ég teldi að hann ætti að finna sér annan farveg og hann ætti ekki að fara í dómgæslu fyrir mig. Þá horfði hann í augun á mér og sagði: „Pabbi, mér er alveg sama hvað þér finnst!“. Hann er í þessu á sínum forsendum.“

Hvernig upplifir þú breytinguna í íslenskum körfubolta á þessum tíma sem þú hefur verið?

„Það er ótrúlega margt sem hefur breyst og miklar framfarið orðið á mörgum sviðum. Erlendir leikmenn voru bannaðir í fimm ár og fyrsta árið mitt í deildinni var það síðasta af þeim árum. Það var mikil stemmning þegar Kanarnir komu aftur 1989 en núna eru margir erlendir leikmenn í öllum liðum og því miklu fleiri góðir leikmenn í deildinni en áður. Dómgæslan hefur líka mikið breyst. Stóra breytingin var auðvitað að fjölga dómurum úr tveimur í þrjá sem var mikið framfaraskref. Dómgæslan sjálf hefur líka tekið gríðarlegum framförum. Væntingar þátttakenda leiksins er alltaf að dómarinn geri engin mistök en sennilega náum við því aldrei. En með stöðugri þróun og stöðlun á verklagi, þjálfun, kennslu, aðhaldi og endurgjöf hefur okkur tekist að auka fagmennsku og bæta frammistöðu stórlega. Mér finnst magnað að ég hafi sjálfur tekið framförum 34 ár í röð.“

Ertu eitthvað farinn að huga að því að hætta þessu flautudæmi?

„Ég á skilningsríka og þolinmóða konu, annars hefði þetta ekki verið hægt. Ég hélt einhvern tíma að ég myndi hætta fimmtugur, en núna er ég að vera 52ja í vor. Ég er þakklátur fyrir að hafa heilsu í þetta enn. Ég er þakklátur fyrir traust sem ég finn frá stjórnendum mínum hjá KKÍ og samdómurum. Ég er líka þakklátur fyrir viðmótið sem ég finn frá leikmönnum og þjálfurum sem lætur mig halda að ég sé að gera gagn. Ég hef ennþá metnað til að reyna að gera betur í dag en í gær og á meðan allt þetta er til staðar þá tek ég einn leik í einu.

Ég vil nota tækifærið og þakka samferðarfólki mínu í hreyfingunni í gegnum tíðina. Öll þessi góðu samskipti við sjálfboðaliða hringinn í kringum landið hefur gefið mér mikið og ég stend í mikilli þakkarskuld fyrir tækifærin sem ég hef fengið. Körfuknattleiksfjölskyldan er stór og vel skipuð,“ segir Kristinn Óskarsson.

Kristinn með þeim Davíð T. Tómassyni t.v. og Aðalsteini Hjartarsyni. Sjáið merkinguna á bol Kristins.



Kristinn í kunnuglegri stellingu í upphafi 800. leiksins milli UMFG og Stjörnunnar.