Íþróttir

UMFN í góðum gír á 75 ára afmælinu
Á aðalfundinum voru nokkrir UMFN félagar heiðraðir fyrir góð störf.
Föstudagur 26. apríl 2019 kl. 05:00

UMFN í góðum gír á 75 ára afmælinu

Ólafur Eyjólfsson var endurkjörinn formaður á aðalfundi Ungmennafélags Njarðvíkur sem haldinn var 10. apríl á 75 ára afmæli félagsins. Fram kom að rekstur félagsins er góður og jákvæður hjá öllum deildum félagsins.  Stjórn félagsins er óbreytt.

Gestir frá ÍSÍ og UMFÍ mættu á fundinn og afhentu viðurkenningar. Helga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður frá UMFÍ, færði félaginu áritaðan platta og blóm í tilefni afmælisins. Þráinn Hafsteinsson, formaður þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, afhenti formönnum  þriggja deilda UMFN, knattspyrnu-, körfuknattleiks- og sunddeildinni endurnýjun á vottun sem fyrirmyndarfélag/-deild ÍSÍ.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Knattspyrnu-, körfuknattleiks- og sunddeildirnar fengu endurnýjun á vottun sem fyrirmyndarfélag/-deild ÍSÍ.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, óskaði félaginu til hamingu og talaði um gott samstarf félagsins við Reykjanesbæ og nauðsyn þess að ungmenna- og íþróttafélög væru öflug þar sem þau skiluðu ómetanlegu starfi í barna- og unglingastarfi.

Á fundinum var Ólafi Eyjólfssyni veitt gullmerki félagsins og Thor Hallgrímsson fékk silfurmerki. Bronsmerki fengu Harpa Kristín Einarsdóttir, Guðný Björg Karlsdóttir og Hjörvar Örn Brynjólfsson. Einnig var Leifi Gunnlaugssyni veitt gullmerki með lárviðarsveig á lokahófi knattspyrnudeildarinnar sem fram fór í október 2018.

Ólafur formaður fékk gullmerki en líka afmælisplatta frá Ungmennafélagi Íslands.

Ólafsbikarinn sem afhentur hefur verið síðan 2003 hlaut að þessu sinni Harpa Kristín Einarsdóttir fyrir störf sín fyrir sunddeild UMFN en Ólafur Thordersen afhenti bikarinn.


Harpa Kristín Einarsdóttir og Ólafur Thordersen.