Íþróttir

Tveir nýir íþróttasalir í Grindavík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 7. febrúar 2020 kl. 07:52

Tveir nýir íþróttasalir í Grindavík

Tveir nýir íþróttasalir í nýrri 1500 fermetra viðbyggingu við íþróttahúsið í Grindavík voru vígðir formlega  sunnudaginn 2. febrúar. Bjarni Már Svavarsson, formaður Ungmennafélags Grindavíkur, segir að nýju salirnir verði frábær viðbót og muni gjörbreyta æfingaaðstöðu félagsins. Félagið fagnar 85 ára afmæli um þessar mundir.

Um er að ræða stóran keppnisvöll fyrir körfubolta, alls 900 fermetra að flatarmáli, og annan minni sal fyrir aðrar greinar. Samtals er nýja viðbyggingin rúmlega tvö þúsund fermetrar að stærð. Framkvæmdir við hana hófust í lok árs 2017. Verktaki var Grindin ehf. 

Fannar Jónasson, bæjarstjóri, sagði við vígsluna að mikil vinna hafi hvílt á starfsmönnum tæknideildar Grindavíkurbæjar og fleirum sem hann þakkaði fyrir vel unnin störf. 

„Grindvíkingar hafa síðustu viku verið minntir á ofurkrafta náttúrunnar. Á liðnum áratugum og árhundruðum hafa Grindavíkingar þurft að standa saman þegar á reynir. Samheldni fólks í sjávarbyggðum eins og Grindavík hefur verið mikil alla tíð. Það var nauðsynlegt áður fyrr til að lifa af í harðri baráttu við óblíða náttúru og veðurfar. Hér hefur fólk stundum tekist á og látið skoðanir sínar tæpitungulaust í ljós en þegar á reynir standa íbúarnir saman sem einn maður, styðja hvert annað og fagna líka þegar vel árar,“ sagði bæjarstjóri meðal annars í ávarpi sínu.

Við vígsluathöfnin var einnig undirritaður samstarfssamningur við Janus Guðlaugsson, doktor, um fjölþætta heilsueflingu eldri borgara í Grindavík.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands, afhenti formanni UMFG áritaðan skjöld frá UMFÍ. Hún sagði starf UMFG í blóma og ný aðstaða myndi auðvelda starfið. VF-myndir/pket.

Séð inn nýjan stóran íþróttasal sem í framtíðinni verður keppnissalur.

Í nýjum minni sal verður góð aðstaða fyrir aðrar greinar.