Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Tóku þátt í Spartan-hlaupi í Frakklandi
Laugardagur 30. nóvember 2024 kl. 07:42

Tóku þátt í Spartan-hlaupi í Frakklandi

Í byrjun október fóru tólf iðkendur og þjálfarar í SportHIIT Sporthúsinu saman til Saint Raphael í suður Frakklandi til að taka þátt í Spartan-hlaupi. Með þeim fór hópur sem æfir í Boot Camp í Sporthúsinu í Kópavogi.

Birgitta Birgisdóttir úr Reykjanesbæ var í hópnum og hún segir að ferðin hafi verið mjög vel heppnuð og skemmtileg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Í Spartan-hlaupi getur þú valið um að hlaupa mismunandi vegalengdir með mismunandi mörgum hindrunum á leiðinni; Sprint sem er 5 km og 20 hindranir, Super sem er 10 km og 25 hindranir eða  Beast sem er 21 km og 30 hindranir. Það er líka hægt að taka öll þrjú hlaupin á einu almanaksári og færðu þá svokallaða Trifecta-medalíu. Sumir klára þetta á einni helgi sem er mjög krefjandi en okkar maður, Árni Freyr, kláraði það afrek en við hin létum eitt hlaup duga. Hindranirnar eru miserfiðar en hægt er að taka refsingu ef maður treystir sér ekki eða klikkar á hindrun, refsingarnar eru auðveldari í framkvæmd en taka lengri tíma.“

Í hlaupinu voru alls konar fólk í mismunandi líkamlegu formi og fóru allir á sínum hraða og eftir sínum markmiðum.

„Við nutum þess að hreyfa okkur í fallegri náttúru og í frábærum félagsskap og erum öll staðráðin í því að þetta munum við gera aftur, en hægt er að fara í þessi hlaup víðs vegar um heiminn og er þetta því góð leið til að ferðast til nýrra staða og hafa skemmtilegt markmið í leiðinni,“ segir Birgitta.