Stfs
Stfs

Íþróttir

Þú skorar mörk sem lið
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 3. ágúst 2020 kl. 22:57

Þú skorar mörk sem lið

– ég er bara sá sem sé um að koma boltanum í netið

Joey Gibbs hefur heldur betur leikið vel í Lengjudeildinni í sumar og reynst mikilvægur hlekkur í liði Keflavíkur. Þessi knái Ástrali hefur fallið vel að leik Keflavíkurliðsins og bætt gæði sóknarleiks þess. Blaðamaður Víkurfrétta heyrði í Joey eftir leikinn gegn Vestra þar sem hann skoraði tvö mörk og er markahæstur í Lengjudeildinni eftir átta umferðir ásamt Gary Martin leikmanni ÍBV. Joey er samt hógværðin uppmáluð þegar talið berst að markaskorun og segir hana aðeins lokahlekkinn í langri keðju sem allt liðið stendur að baki í sameiningu.

Keflavík er lið og bær sem ætti að vera í efstu deild

– Jæja Joey, tímabilið hefur farið vel af stað hjá þér.

„Já, þetta er gott upphaf á tímabilinu. Ekki bara hjá mér einum heldur liðinu öllu. Við höfum örlítið misst taktinn á tímum en verið að taka framförum eftir því sem líður á deildina – sem er jákvætt því við erum ekki enn upp á okkar besta, við eigum meira inni.

Metnaður okkar og markmið er að vinna okkur upp um deild og leika í efstu deild að ári. Af því sem ég hef kynnst á þeim tíma sem ég hef verið hér á Íslandi þá finnst mér Keflavík vera lið og bær sem ætti að vera í efstu deild og þar viljum við virkilega vera á næsta ári.“

– Nú ert þú markahæstur í Lengjudeildinni þó Gary Martin [ÍBV] hafi reyndar verið að jafna það með því að skora „hat-trick“ í kvöld. Ertu ekki í góðu standi?

„Jú, ég lít reyndar á það þannig að mörkin eru afrakstur þeirrar „þjónustu“ sem ég fæ frá liðsfélögum mínum. Ég tek hlaupin og stóla á sendingar frá félögunum – og ég hef verið að fá góða aðstoð frá þeim. Ég vona að sú tenging sem við höfum náð haldi áfram. Ég meina, þetta er ein ástæða þess að ég elska að leika fótbolta. Þú skorar mörk sem lið, ég er bara sá sem sé um að setja boltann í netið.“

Metur sjálfan sig ekki út frá markaskorun

„Ég held að það séu alls kyns týpur af sóknarmönnum til, ég sjálfur fæ mest út úr því að vinna vinnuna mína vel. Ég lít ekki á mitt hlutverk sé bara að skora mörk, að vera sóknarmaður snýst um svo margt annað. Sérstaklega þegar maður er í svona liði eins og Keflavík, það er mikil áhersla lögð á hvernig við pressum, hvernig við verjumst og stundum er það mitt verk að halda boltanum. Ég legg mikinn metnað í að vinna vinnuna mína vel, ekki bara að skora mörk því stundum spilar maður vel án þess að skora og stundum spilar maður illa en skorar. Þannig að mér finnst mikilvægt að meta ekki sjálfan sig eingöngu út frá markaskorun.“

– Hvernig stóð á því að þú endaðir uppi á Íslandi af öllum stöðum?

[Hlær] „Ég bjóst nú reyndar aldrei við að ég myndi leika á Íslandi, ég er reyndar ekki alveg viss hvernig stendur á því en býst við að Keflavík hafi sett sig í samband við fulltrúa minn eða öfugt. Um leið og ég hafði rætt við Sigga [Sigurð Garðarsson, formann Keflavíkur] fannst mér það hljóma freistandi. Hann sagði mér frá sínum fyrirætlunum, hvernig þeir vildu leika og hverju þeir væru að leita eftir. Ég hafði séð eitthvað af Íslandi í sjónvarpinu og vissi að það væri falleg land svo ég hugsaði með mér: „Því ekki?,“ og sló til.

Ég er mjög ánægður að hafa komið því ég hef notið þess að vera hérna, notið bæjarins og félagið hefur reynst mér mjög vel. Leikmennirnir hafa tekið mér vel og okkur hefur gengið vel að smella saman. Allt hefur gengið virkilega vel.“

– Hefurðu getað ferðast eitthvað um landið fyrir utan keppnisferðir?

„Já, aðeins. Ekki eins mikið og ég hefði viljað því Covid setti einhvern veginn allt úr skorðum. Eftir á að hyggja hefði sá tími kannski verið upplagt tækifæri til þess en svo þegar tímabilið hófst tóku stífar æfingar við og maður var upptekinn við vinnu. Ég náði þó að ferðast eitthvað um Suðurlandið sem var mjög ánægjulegt. Við fáum reyndar nokkurra daga frí í vikunni og þá vonast ég til að fara með einhverjum af strákunum til að sjá meira af landinu.“

Hefur mikinn áhuga á tónlist

– Áttu þér einhver áhugamál fyrir utan fótboltann?

„Mörg minna áhugamála eru „áströlsk“ og kannski ekki sniðin að Íslandi. Ég fer t.d á brimbretti í Ástralíu, það er eitthvað sem ég get ekki gert hérna.“

Þegar blaðamaður skýtur inn að einhverjir örfáir „sörfi“ hérlendis hlær Joey og segist þá þurfa að fá sér mjög þykkan blautgalla.

„Á þeim tíma sem ég hef verið hérna hef ég einnig lagt stund háskólanám, það hefur tekið sinn tíma og haldið mér uppteknum. Svo hef ég mjög gaman af lifandi tónlist. Ég hefði viljað getað komist á tónleika en þá komum við aftur að þessu Covid sem hefur aftrað því. Ég hef heyrt að Keflavík hafi það orðspor á sér að vera tónlistarbær og ég myndi elska að komast í kynni við tónlistina hér. Ég hef mjög breiðan tónlistarsmekk, hlusta á allt frá Nirvana til Neil Young og þess háttar. Ég er alæta á tónlist.“

– Leikurðu á hljóðfæri sjálfur?

„Nei, því miður bý ég ekki yfir þeim hæfileika. Kærastan mín í Ástralíu er sú sem hefur tónlistarhæfiileikana, hún leikur á fiðlu og víólu. Ég myndi elska að geta leikið á gítar, ég hef reynt að læra sjálfur en ekki fylgt því eftir.

Svo er ég aðeins byrjaður að reyna fyrir mér í golfi, ég er með pútter í bílnum og fer stundum á púttvöllinn við Mánaflöt. Mig langar að læra golf og verða aðeins betri, ég hef séð að það eru margir fallegir golfvellir hérna.“

Ætlar að verða grunnskólakennari þegar ferlinum lýkur

Joey leggur stund á kennaranám þessa stundina, hann hefur BS-gráðu í íþróttafræðum og langar að blanda saman þjálfun og kennslu barna þegar hann leggur fótboltann á hilluna.

„Þegar ég var í Ástralíu fékkst ég aðeins við þjálfun yngri krakka og ég held að maður bæti sig sem manneskju við að deila sinni þekkingu með yngri kynslóðum. Að vinna við knattspyrnu hefur svolitla glansímynd á sér og þegar maður hugsar til þess hvað maður geti gefið til baka til samfélagsins og einstaklinga þá finnst mér kennsla vera af svo allt öðrum toga og tilfallin til þess. Mér myndi líða vel í þannig starfi og að geta gefið af mér, ég er alveg viss um að það sé mjög gefandi.“

Líður vel á Íslandi

„Upphaflega samdi ég til eins árs við Keflavík því þetta er svo framandi staður og ég vissi ekki við hverju ég mætti búast. Ég hef notið þess að vera hérna og held að klúbburinn sé ánægðu með mína frammistöðu svo ég reikna með að við setjumst fljótlega niður og ræðum framhaldið. Þetta er góður staður til að vera á, ég vildi óska að kærastan mín gæti komið en hún er augljóslega föst í Ástralíu út af Covid-ástandinu en vonandi verður næsta ár auðveldara.“

Joey veitir okkur innsýn í tónlistarsmekk sinn

Hér eru nokkur nöfn á hljómsveitum/söngvurum og uppáhaldslag með hverjum og einum:

Cold Chisel (ástralskt „old school“ pöbbarokk / dæmigerð áströlsk tónlist) uppáhaldslagið er Flame Trees.

Johnny Cash (við þekkjum hann öll) uppáhaldið mitt með honum er Cocaine Blues.

Rodriguez (platan hans Cold Fact ein af mínum uppáhalds) held mikið upp á lagið I Wonder.

Paul Kelly (fyrir mér er hann hinn ástralski Bob Dylan) To Her Door er uppáhaldslagið mitt með honum.

Laurencia (kærastan mín er nýbyrjuð að semja og gefa út tónlist, ég myndi koma sjálfum mér í vandræði ef hún ratar ekki á listann) Run er lag með henni sem ég held upp á.