Íþróttir

Þróttarar stórhuga
Frá aðalfundi Þróttar. Mynd: throttur.net
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 17. mars 2021 kl. 17:13

Þróttarar stórhuga

Ætla að sækja um Landsmót UMFÍ 50+ árið 2022

Petra Ruth Rúnarsdóttir var endurkjörin formaður Þróttar í Vogum á aðalfundi félagsins sem haldinn var fyrir skemmstu, þriðja kjörtímabil Petru fer nú í hönd. 

Auk Petru í stjórn Þróttar Vogum eru þau Katrín Lára Lárusdóttir, Reynir Emilsson, Jóna K. Stefánsdóttir og Davíð Hanssen. Varamenn eru Sólrún Ósk Árnadóttir og Birgitta Ösp Einarsdóttir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þrátt fyrir að félaginu hafi verið sniðinn þröngur stakkur í því ástandi sem skapaðist af völdum kórónuveirufaraldurinsins skilaði Þróttur hagnaði upp á ríflega hálfa milljón króna og eigið fé var um árslok 821.563.

Guðmundur Stefán Gunnarsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Voga, mætti á fundinn og hélt tölu þar sem hann talaði m.a. um hve Ungmennafélagið Þróttur skipti samfélagið í Vogum miklu máli, félagið væri að standa sig frábærlega í sínum störfum. 

Covid hafði mikil áhrif á starfsemi félagsins 

Rétt eins og aðrir í samfélaginu hafði Covid veruleg áhrif á starfsemi Þróttar á árinu. Það reynd verulega á þolinmæði og þrautseigju þeirra sem starfa hjá félaginu, bæði stjórnendur og iðkendur. Frá 15. mars til 4. maí stöðvaðist allt íþróttastarf sem hafði í kjölfarið áhrif á alla iðkendur í skipulögðu íþróttastarfi hjá Þrótti. Það var reynt eftir fremsta megni að sinna iðkendum félagsins með sem bestum hætti. Þjálfarar sendu iðkendum heimaæfingar frá fyrsta degi lokunar.

Strax í upphafi var ljóst að tekjubresturinn yrði einhver og fjárhagstjónið stórt. Því var leitað til starfsfólks, þjálfara og annara innan félagsins að taka á sig tímabundnar skerðingar og starfsfólk mætti þessum aðstæðum með miklum skilningi. Allir sýndu stöðunni skilning og fundu stjórnendur fyrir mikilli samstöðu meðal Þróttara.

Fjölmargir viðburðir féllu niður vegna ástandsins og ekki var hægt að faraí fastar fjáraflanir sem hafa gefið vel af sér. Þróttur fékk myndarlega styrki frá ÍSÍ, KSÍ og tókst að sækja um í hina ýmsu sjóði til að bregðast við tekjubresti.

„Eins og staðan er í dag höfum við miklar áhyggjur af brottfalli iðkenda úr íþróttum í kjölfar faraldursins,“ sagði Petra í skýrslu stjórnar. „Skráningar skiluðu sér inn seinna en venjulega í haust og teljum við það vera mögulega vegna þess að forráðamenn vildu fylgjast með þróun faraldrar. Æfingar hafa ekki farið fram með hefðbundnum hætti og það hefur áhrif á okkar iðkendur. Þjálfarar gátu ekki haft kynningu á starfinu í skólanum eins og hefur verið gert seinustu ár og því erfiðara að ná til krakkana. Við viljum því hvetja foreldra að halda áfram að vera með okkur í liði og hvetja krakkana til að mæta á æfingar þar sem íþróttaiðkun er mikilvæg fyrir líkamlega og andlega líðan barnanna okkar.“

Þróttarar eru nú ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát og sést það best í þeim árangri sem knattspyrnulið félagsins hefur náð að undanförnu og í þeirri stemmningu sem hefur skapast í kringum liðið. Vogabúar hafa fylkst að baki sínu félagi og má reikna með að þeir geri áfram það þótt á móti blási.