Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Íþróttir

Þróttarar sigurvegarar B-deildar
Alexander skoraði tvö í úrslitaleiknum fyrir Þrótt.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 9. febrúar 2021 kl. 18:52

Þróttarar sigurvegarar B-deildar

Fótbolta.net-mótinu í knattspyrnu lauk um helgina. Þróttarar sigruðu Selfyssinga 6:2 eftir að hafa komist á ævintýralegan hátt í úrslitaleik B-deildar en til þess þurftu þeir sjö marka sigur gegn Vestra í síðasta leik riðilsins.

Þróttur lék gegn Selfossi síðasta föstudag á Fylkisvellinum í úrslitaleik B-deildar. Þróttarar byrjuðu betur og komust yfir á 18. mínútu með marki Hauks Leifs Eiríkssonar. Selfyssingar jöfnuðu undir lok fyrri hálfleiks en í upphafi þess síðari kom Arnar Sigþórsson Þrótti aftur yfir með marki úr vítaspyrnu auk þess sem Selfyssingar misstu mann af velli með rautt spjald. Þótt Þróttarar væru manni fleiri jafnaði Selfoss leikinn aftur þegar Örn Rúnar Magnússon varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark (‘60). Við að fá á sig sjálfsmark settu Þróttarar í fluggírinn og skoruðu fjögur mörk á síðasta hálftímanum til að tryggja sigur í deildinni.

Mörk Þróttar: Haukur Leifur Eiríksson (‘18), Arnar Sigþórsson (‘45, víti), Unnar Ari Hansson (‘63), Alexander Helgason (‘78, ‘87) og Eyjólfur Arason (‘85).

Njarðvík 2:2 Haukar (3:4 í vítaspyrnukeppni)

Haukar unnu Njarðvík eftir vítaspyrnukeppni í leik um þriðja sæti B-deildar Fótbolta.net mótsins þegarliðin mættust í Reykjaneshöllinni.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2:2 og því þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.
Haukar höfðu betur þar og unnu vítakeppnina 4:3 og bronsverðlaunin því þeirra þetta árið.

Reynismenn hársbreidd frá því að komast í úrslitaleik C-deildar

Elliði vann Reyni Sandgerði á Würth-vellinum í Árbænum og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleik deildarinnar með sigri í riðli 1. Reynir endar í 2. sæti og leikur um bronsið.

Keflavík tapaði fyrir Gróttu

Grótta vann Keflavík 3:2 í leik um fimmta sæti Fótbolta.net-mótsins en leikurinn fór fram á Vivaldi-vellinum síðasta föstudag.

Gróttumenn skoruðu tvö mörk með stuttu millibili. Fyrra markið kom á 20. mínútu og það síðara á 25. mínútu áður en Keflvíkingum tókst að jafna með mörkum frá þeim Jóhanni Þór Arnarssyni og Ara Steini Guðmundssyni í þeim síðari. Gróttumenn skoruðu sigurmarkið þegar fimm mínútur voru til leiksloka og Keflavík endar því í sjötta sæti A-deildar.
Keflvíkingar eiga því harma að hefna þegar liðin mætast á laugardaginn í fyrsta leik þeirra í Lengjudeildinni.
Grindvíkingar léku ekki í úrslitunum þar sem þeir lentu í fjórða sæti 2. riðils en aðeins þrjú lið voru í 1. riðli. Grindavík lenti því í sjöunda sæti.

Kvennalið Keflavíkur vann Gróttu í æfingaleik

Undirbúningur fyrir knattspyrnutímabilið er líka á fullu hjá stelpunum en stelpurnar í knattspyrnuliði Keflavíkur unnu góðan sigur, 4:0, á Gróttu í Reykjaneshöllinni á laugardaginn. 
Markaskorarar Keflavíkur voru þær Eva Lind Daníelsdóttir (2), Dröfn Einarsdóttir og Natasha Anasi.
Þetta var síðasti æfingaleikur liðsins fyrir Lengjubikarinn sem hefst næstu á laugardag þegar Keflavík leikur gegn Selfossi í Reykjaneshöllinni.

Lengjubikarinn hefst um helgina

Keppni í Lengjubikarnum hefst um næstu helgi þegar fyrstu leikir í A-deildum karla og kvenna verða spilaðir, allir leikir Suðurnesjaliðanna fara fram á laugardeginum. Leikir í B-deildum hefjast viku síðar og svo loks í C-deildum um þriðju helgi.

Grindavík mætir HK í Kórnum og hefst sá leikur klukkan 11:30.

Þá mætir karlalið Keflavíkur Gróttu á Vivaldi-vellinum kl. 14:00.

Kvennalið Keflavík tekur svo á móti Selfossi í Reykjaneshöllinni klukkan 12:00 á laugardaginn.