Íþróttir

Þróttarar fóru illa með Selfyssinga
Hermann Hreiðars fór með strákana á Hótel Stracta fyrir leik, eitthvað gerði dvölin fyrir Þróttara sem fóru á kostum gegn Selfossi. Mynd: Þróttur Vogum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 19. september 2020 kl. 17:31

Þróttarar fóru illa með Selfyssinga

Þróttarar fóru heldur betur illa með Selfyssinga þegar liðin mættust á Selfossi í dag í 2. deild karla. Fyrir leik gisti liðið á Hótel Stracta á Hellu og eitthvað hefur lúxusinn þar gert fyrir Þróttara því þeir sigruðu Selfoss 4:1. Fyrir vikið eru Þróttarar nú komnir í bullandi toppbaráttu.

Hvort það hafi verið eitthvað í morgunverðinum á hótelinu eða ástæðan sé önnur þá tók það Þróttara ekki nema sautján mínútur að klára leikinn.

Strax á 5. mínútu kom Örn Rúnar Magnússon þeim yfir og á 9. mínútu bætti Andri Jónasson öðru marki við.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ethan James Alexander Patterson bætti þriðja markinu við (12') áður en Hubert Rafal Kotus skoraði fjórða mark Þróttar á 17. mínútu.

Staðan í hálfleik var því 4:0 fyrir Þrótt gegn Selfossi sem er í öðru sæti deildarinnar.

Selfyssingar minnkuðu muninn í upphafi seinni hálfleiks í 4:1 (48') en lengra komust þeir ekki og stórsigur Þróttar niðurstaðan.

Með sigrinum er Þróttur nú komið í þriðja sæti 2. deildar, aðeins þremur stigum á eftir Selfossi. Enn eru fimm umferðir eftir í deildinni og fimmtán stig í boði svo það er allt galopið í deildinni. Kórdrengir eru á toppnum með 40 stig, Selfoss 37, Þróttur 34 og Njarðvík 33.

Á botninum situr Völsungur með átta stig, Reynir/Dalvík með tíu og Víðismenn með þrettán en þeir eiga leik gegnn Kára til góða.