Íþróttir

Þróttarar fóru illa með Selfyssinga
Hermann Hreiðars fór með strákana á Hótel Stracta fyrir leik, eitthvað gerði dvölin fyrir Þróttara sem fóru á kostum gegn Selfossi. Mynd: Þróttur Vogum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 19. september 2020 kl. 17:31

Þróttarar fóru illa með Selfyssinga

Þróttarar fóru heldur betur illa með Selfyssinga þegar liðin mættust á Selfossi í dag í 2. deild karla. Fyrir leik gisti liðið á Hótel Stracta á Hellu og eitthvað hefur lúxusinn þar gert fyrir Þróttara því þeir sigruðu Selfoss 4:1. Fyrir vikið eru Þróttarar nú komnir í bullandi toppbaráttu.

Hvort það hafi verið eitthvað í morgunverðinum á hótelinu eða ástæðan sé önnur þá tók það Þróttara ekki nema sautján mínútur að klára leikinn.

Strax á 5. mínútu kom Örn Rúnar Magnússon þeim yfir og á 9. mínútu bætti Andri Jónasson öðru marki við.

Ethan James Alexander Patterson bætti þriðja markinu við (12') áður en Hubert Rafal Kotus skoraði fjórða mark Þróttar á 17. mínútu.

Staðan í hálfleik var því 4:0 fyrir Þrótt gegn Selfossi sem er í öðru sæti deildarinnar.

Selfyssingar minnkuðu muninn í upphafi seinni hálfleiks í 4:1 (48') en lengra komust þeir ekki og stórsigur Þróttar niðurstaðan.

Með sigrinum er Þróttur nú komið í þriðja sæti 2. deildar, aðeins þremur stigum á eftir Selfossi. Enn eru fimm umferðir eftir í deildinni og fimmtán stig í boði svo það er allt galopið í deildinni. Kórdrengir eru á toppnum með 40 stig, Selfoss 37, Þróttur 34 og Njarðvík 33.

Á botninum situr Völsungur með átta stig, Reynir/Dalvík með tíu og Víðismenn með þrettán en þeir eiga leik gegnn Kára til góða.