Íþróttir

Thelma leikur með Keflavík í úrslitakeppninni
Thelma í leik með háskólaliði sínu í Bandaríkjunum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 10. maí 2021 kl. 23:06

Thelma leikur með Keflavík í úrslitakeppninni

Keflvíkingar hafa fengið risa liðsstyrk en Thelma Dís Ágústsdóttir mun leika með liðinu í úrslitakeppninni sem hefst á næstu dögum. Thelma var besti leikmaður Keflavíkur þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2017 og bikarmeistari sama ár og síðan 2018. Hún var kjörin leikmaður tímabilsins 2016-17.

Hún er á heimleið eftir útskrift frá háskólanámi í Bandaríkjunum. Frá þessu var fyrst greint í körfuboltakvöldi á Stöð 2.

Public deli
Public deli

Thelma Dís er 21 árs og hefur síðustu þrjú árin leikið með Ball State Cardinals í 1. deild bandaríska háskólaboltans. Þar gekk henni vel, skoraði tæp 12 stig á lokaárinu og var með 44 prósent hittni úr þriggja stiga skotum.

Það þarf ekki að fjölyrða um liðsstyrkinn sem hún verður í ungu Keflavíkurliði sem hefur gefið eftir að undanförnu eftir að hafa verið í toppsæti deildarinnar framan af vetri.