Reykjanes Optikk
Reykjanes Optikk

Íþróttir

Tap hjá Grindavík þrátt fyrir fjölda færa
Hvert dauðafærið af öðru fór í súginn hjá Grindavík í gær. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 28. júlí 2022 kl. 11:54

Tap hjá Grindavík þrátt fyrir fjölda færa

Fyrsta tap Njarðvíkinga í deildinni

Grindavík tapaði heima fyrir Þór Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær og hafa Grindvíkingar þá tapað þremur leikjum í röð. Þrótttur Vogum heimsótti Vestra á Ísafjörð þar sem heimamenn unnu 4:0. Þá hafði Víkingur Ólafsvík óvænt betur gegn Njarðvík á Rafholtsvellinum í 2. deild karla en fyrir leikinn voru Njarðvíkingar taplausir í deildinni.

Grindavík - Þór 1:2

Gestirnir skoruðu tvö mörk á skömmum í fyrri hálfleik (16' og 21') og það sló heimamenn svolítið út af laginu. Grindavík náði ekki að ógna verulega í fyrri hálfleik en það breyttist í þeim síðari.

Guðjón Pétur Lýðsson lék sinn fyrsta leik með Grindavík eftir að hafa komið frá ÍBV.

Hvort það var hálfleiksræða Alfreðs þjálfara eða innkoma nýjasta leikmanns Grindvíkinga, Guðjóns Péturs Lýðssonar, þá var allt annar bragur á leik heimamanna sem mættu mjög baráttuglaðir til leiks í seinni hálfleiks.

Grindvíkingar voru talsvert betri aðilinn og sótti stíft en þeim virtist fyrirmunað að skora – Þórsarar björguðu á línu, sláarskot og góð markvarsla kom í veg fyrir að inn færi boltinn.

Síðasta tækifærið. Dagur Ingi nærri því að ná til boltans en hann skoraði glæsilegt mark skömmu áður.

Dagur Ingi Hammer minnkaði muninn á 82. mínútu með stórglæsiegu skoti alveg uppi í samskeytunum, óverjandi fyrir markvörð Þórs. Þórsarar voru í nauðvörn og heimamenn sóttu linnulaust en fleiri urðu mörkin ekki. Hreinlega ótrúlegt að Grindavík hafi aðeins náð að skora eitt mark miðað við færi.


Vestri - Þróttur 4:0

Brynjar Gestsson, þjálfari Þróttar, þarf að detta niður á snilldarlausn ef Þróttur ætla að halda sæti sínu í deildinni.
 

Vestri skoraði tvívegis í upphafi leiks (6' og 9') og leiddu 2:0 í hálfleik.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk leikmaður Vestra að sjá rauða spjaldið (42') og heimamenn því einum færri í síðari hálfleik. Það breytti þó engu fyrir leik Þróttara sem náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og Vestri bætti tveimur mörkum við í seinni hálfeik (71' og 83').


Njarðvík - Víkingur Ó. 1:3

Njarðvík komst yfir með marki frá markahæsta leikmanni 2. deildar, Oumar Diouck (16'), en Víkingar jöfnuðu stuttu fyrir hálfleik (38').

Oumar Diouck hefur skorað fjórtán mörk og er markahæstur í 2. deild.

Víkingar vörðust vel og sýndu mikla baráttu og Njarðvíkingum varð lítið ágengt sóknarlega. Hins vegar komust gestirnir óvænt yfir með marki úr skyndisókn á 58. mínútu. Njarðvíkingar voru ekki ánægðir með að lenda undir og fyrstu mínúturnar eftir markið var eins og tíminn væri að renna frá þeim, allt kapp var lagt á að jafna og bitnaði það á gæðum leiksins. Of margar sendingar fóru í súginn og leikmenn virtust taugaveiklaðir.

Njarðvíkingar náðu sér þó fljótlega niður og leikur þeirra batnaði en sem fyrr voru Víkingar fastir fyrir í vörninni. Þeir gerðu endanlega út um leikinn á 85. mínútu með öðru marki úr skyndisókn og stóðu af sér þunga sókn heimamanna.

Frammistaða Njarðvíkinga í gær var sennilega sú lakasta sem liðið hefur sýnt í sumar en Njarðvík hefur borið höfuð og herðar yfir önnur lið í deildinni í ár og hefur átta stiga forskot á toppi deildarinnar.

Víkingar fögnuðu þriðja markinu vel enda fyrstir til að vinna Njarðvík í ár.

Ægir - Reynir 1:1

Reynismenn hafa verið á uppleið eftir að Bjarki Már Árnason tók við liðinu. Bjarki var á leikmannaskýrslu í gær og var skipt inn á 88. mínútu.

Reynismenn gerðu þriðja jafnteflið í röð þegar þeir mættu Ægi í Þorlákshöfn.

Eftir markalausan fyrri hálfleik voru heimamenn fyrri til að skora (68') en Magnús Magnússon jafnaði leikinn í uppbótartíma (90'+1).


Víðir - Augnablik 0:0

Víðir og Augnablik skildu jöfn í gær í 3. deild karla á sama tíma og KFG og Dalvík/Reynir unnu sína leiki. Víðismenn eru því komnir í þriðja sæti deildarinnar.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leikjum Grindavíkur og Njarðvíkur sem má sjá neðst á síðunni.

Grindavík - Þór (1:2) | Lengjudeild karla 27. júlí 2022

Njarðvík - Víkingur Ó. (1:3) | 2. deild karla 27. júlí 2022