Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sundið er lífið hjá Evu Margréti
Strax farin að vinna til verðlauna. Eva með Steindóri Gunnarssyni, þjálfara sínum, fyrir „örfáum“ árum síðan.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 30. nóvember 2024 kl. 07:52

Sundið er lífið hjá Evu Margréti

Keflvíkingurinn Eva Margrét Falsdóttir verður á meðal keppenda á Norðurlanda­mótinu í sundi sem verður haldið í Vejle í Danmörku í byrjun næsta mánaðar.
Hefur náð frábærum árangri í sundlauginni frá unga aldri.
Sigursælasta sundkonan á síðasta Íslandsmóti.

„Ég held að ég hafi verið svona fimm ára þegar ég byrjaði að æfa sund. Ég var fyrst á sundnámskeiðum en ég held að ég hafi byrjað að æfa fimm eða sex ára. Ég var allavega mjög ung,“ segir Eva Margrét en hún er þriðja í röðinni af fjórum systkinum og þau hafa öll verið í sundi. „Við erum tvö sem erum ennþá að æfa, ég og yngri bróðir minn. Ég held að mamma og pabbi hafi reynt að setja mig í aðrar íþróttir líka en ég hafði ekki áhuga á neinu öðru en sundinu. Ég fór kannski á eina æfingu en fílaði það ekki.“

Allt snýst um sundið

Eva Margrét er nítján ára gömul og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja síðasta vor.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég útskrifaðist í maí og var svolítið óákveðin um hvað ég vildi læra, það er svo margt sem mig langaði að gera og ég var líka óviss hvar ég vildi læra. Það er mjög erfitt að æfa sund og vera í háskóla á Íslandi, þannig að ég þurfti að ákveða hvar ég vildi vera. Núna vinn ég í Frístund í Myllubakkaskóla eftir hádegi og svo er ég bara að æfa á morgnana, fer á sundæfingu, lyftingaæfingu og svo á seinnipartsæfingu eftir vinnu,“ segir Eva sem segist leggja megináherslu á sundið þessa dagana.

„Já og ég ætla að hafa það svoleiðis. Þess vegna ætla ég líka að fara út í nám, ég ætla að halda sundinu inni. Núna er ég meira að pæla í Norðurlöndunum og er að fara að skoða skóla í Danmörku í desember. Ég verð svolítið lengi úti og verð eitthvað að keppa með þeim.“

Ertu þá farin að mót þér skoðun um hvaða nám þú ætla að fara í?

„Já, mig langar í sjúkraþjálfunina. Ég er búin að hugsa mikið um þetta og ég er að fara að skoða sjúkraþjálfunina þarna úti en líka verkfræðinám – sem er svolítið ólíkt. Ég hef áhuga á mannslíkamanum og ég hef líka mjög gaman af stærðfræði.

Ég var alltaf helst að pæla í sjúkraþjálfuninni en svo hef ég verið að skoða verkfræðina, þá helst heilbrigðisverkfræði – valið stendur á milli þessa tveggja,“ en Falur faðir hennar er sjúkraþjálfari.

Hvernig gekk þér í stúdentsprófinu?

„Bara mjög vel. Það er eins með námið og með sundið, ég þarf að gera sundið hundrað prósent og þá þarf ég líka að gera námið hundrað prósent. Ég gef mig hundrað prósent í það sem ég tek mér fyrir hendur.“

Eva Margrét ásamt foreldrum sínum, Elínu Rafnsdóttur og Fal Helga Daðasyni, þegar hún útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Segðu mér, hvað gerir þú fyrir utan það að synda?

„Það er stór partur af lífinu hjá mér sem snýst um það að synda, við fáum ekkert mikið frí – en mér finnst gaman að vera með fjölskyldunni minni og vinum. Gott að fara til sólarlanda svona einu sinni á ári og synda í sjónum. Mér finnst skóli mjög skemmtilegur og ég sakna þess núna að vera ekki að læra eitthvað.“

Norðurlandamót í desember

„Norðurlandamótið stendur yfir frá fyrsta til þriðja desember og hópurinn fer heim þann fjórða en ég held áfram og fer að skoða skóla sem ég mun keppa með frá tólfta til fimmtánda desember.“

Þú hefur verið að gera góða hluti í sundinu. Hefurðu verið að taka framförum undanfarið?

„Já, ég er alveg ánægð með hvert ég er komin. Ég er svolítið búin að vera í þægindarammanum hérna heima og er kannski meira að vernda það að vera í fyrsta sæti. Ég held að ég muni taka enn meiri framförum þegar ég fer út – bara af því að þá verð ég að elta einhvern.“

Hverjar eru þínar sérgreinar?

„Ég er í fjórsundi, sem er í raun öll sundin, en ég fókusa líka á bringusundið. Þannig að ég er í öllu bringusundinu og öllu fjórsundinu. Ég, eins og flestar fjórsundsmanneskjur, get alveg synt flestar greinar en bringusundið er það sem ég einblíni á.“

Eva segir að bringusundið sé sennilega flóknasta sundið. „Ef eitthvað er „off“ hjá manni fer allt í klessu,“ segir hún og hlær.

Eva synti frábærlega á Íslandsmótinu í nóvember og vann sex Íslandsmeistaratitla í flokki einstaklinga.

Hverjar eru þínar væntingar í sambandi við Norðurlandamótið?

„Á Norðurlandamótinu í fyrra var ég alltaf fjórða sæti, var alltaf hársbreidd frá því þriðja. Við vorum fjórar sem vorum liggur við allar á sama tíma, þannig að mig langar að ná á pall. Það er markmiðið – og líka bara að bæta mig. Það er bara ég sem set pressu á mig. Ég er þarna til að gera mitt besta.“

Og hvað ertu að keppa í mörgum greinum?

„Ég er að keppa í fjórum greinum á Norðurlandamótinu. Ég var í svolítið mörgum greinum á Íslandsmótinu í síðasta mánuði, svo ég ætla að vera í aðeins færri greinum núna. Ég var í sex greinum plús sex boðsundum, þannig að ég stakk mér átján sinnum í laugina út af undanúrslitum og úrslitum. Það var svolítið mikið,“ segir hún en Eva Margrét var í algjörum sérflokki í fjórsundunum og bringusundinu og vann til sex Íslandsmeistaratitla í einstaklingsflokki kvenna. Eva Margrét sigraði í 100, 200 og 400 metra fjórsundi ásamt því að sigra í 50, 100 og 200 metra bringusundi sem gerði hana að sigursælustu konu Íslandsmótsins. Það var þessi flotti árangur sem tryggði henni þátttökurétt á Norðurlandamótinu.

Þú hefur verið í öllum yngri landsliðum og landsliðsverkefnum.

„Já, ég var alltaf að koma mér inn í landsliðin en svo hefur það orðið aðeins erfiðara síðustu árin. Ég hef alltaf verið í þessum hópum og við erum einmitt að fara í æfingaferð til Tenerife í febrúar. Það verður mjög næs að fá smá sól.“

Þannig að þú hefur alltaf verið vel til þess fallin að keppa í sundi. Hefurðu til dæmis alltaf verið svona hávaxin?

„Já, ég hef alltaf verið mjög hávaxin og ég hætti að stækka mjög seint – veit ekki einu sinni hvort ég sé hætt að stækka,“ segir Eva hlæjandi og bætir við að það sem haldi henni við sundið séu þessar eilífu áskoranir. „Það er svo erfitt að vera í sundinu og hafa ekkert til að stefna að. Það heldur mér gangandi, að komast í þessi verkefni og vera að keppa að einhverju.“

Þetta hlýtur að þarfnast mikils sjálfsaga. Þú ert að mæta á morgunæfingar, síðan ferðu í lyftingar og aftur síðdegisæfingar.

„Já, þetta er eiginlega allt lífið manns. Maður fer snemma að sofa af því að maður veit að maður þarf að vakna snemma til að fara á morgunæfingu. Þetta þarfnast mikils sjálfsaga og skipulagningar,“ sagði Eva Margrét að lokum en hún heldur utan á föstudag og hefur keppni á Norðurlandamótinu á sunnudag.

Eva var valin íþróttakona Reykjanesbæjar árið 2022 en hún hefur jafnframt verið valin íþróttakona Keflavíkur frá árinu 2019 að undanskildu árinu 2020 en þá var féll valið niður vegna Covid.