Nettó
Nettó

Íþróttir

Strákar í allt of stórum strigaskóm
Miðvikudagur 28. nóvember 2018 kl. 06:00

Strákar í allt of stórum strigaskóm

Ekkert til að kvarta yfir - Njarðvíkingnum Guðlaugu líkar lífið vel í Florida

Njarðvíkingurinn Guðlaug Björt Júlíusdóttir hefur það þrælfínt í Florida-ríki Bandaríkjanna þar sem hún býr nánast á ströndinni, spilar körfubolta og nemur við Florida Tech háskólann. Hún er lykilleikmaður hjá skólanum og á sér háleit markmið. Guðlaug er að hefja sitt þriðja tímabil í skólanum en hún hefur vaxið mikið sem leikmaður  á þeim tíma og myndi hiklaust mæla með lífsreynslunni fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á að samtvinna íþróttir og menntun.

Hvernig líkar þér lífið í Florida?

„Mér líkar það mjög vel, ég elska að vera hérna úti. Skólinn hentar mér fullkomlega bæði námslega og körfuboltalega séð. Ég bý nánast á ströndinni, það er heitt allt árið og allt miklu ódýrara en heima, ekkert til að kvarta yfir.“

Hvað gerir þú þegar námið og körfuboltinn eru ekki að trufla þig?

„Þegar tímabilið er byrjað þá er ekki mikill tími í annað en námið og körfuboltann en annars reyni ég að nýta sólina eins mikið og ég get með því að fara á sundlaugarbakkann eða á ströndina. Florida Tech er þekktur fyrir að hafa nemendur víða að úr heiminum sem er mjög gaman að kynnast. Ég á góðar vinkonur og vini bæði úr körfuboltaliðinu og úr öðrum íþróttum hérna úti og erum við mjög dugleg að gera eitthvað saman þegar tími gefst. Mikill tími fer því líka í að horfa á og styðja hinar íþróttirnar. Melbourne bærinn sem Florida Tech er staðsettur í er frekar rólegur bær en við nokkrar úr körfuboltaliðinu erum mjög duglegar að ferðast í kring þegar tímabilið er ekki í gangi.“

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart við að búa þarna úti?

„Í raun og veru er ekki mikið sem kom mér á óvart þar sem ég hef komið svo oft til Florida áður. Aðallega er það hvað allir eru vingjarnlegir hérna og opnir fyrir að kynnast þér og hjálpa ef eitthvað kemur upp á.  En það sem kom mér mest á óvart er hvað fatastíllinn hérna í Melbourne bænum mínum er gjörsamlega enginn, en strákar eru til dæmis alltaf í strigaskóm þremur stærðum of stórum.“

Hér er Guðlaug í eldlínunni í fyrra með liði sínu.

Hvernig er þessi lífsreynsla fyrir íþróttafólk?

„Ég mæli hiklaust með því að yngri körfuboltaiðkendur og aðrir yngri íþróttaiðkendur fari út í skóla til að spila ef þau hafa tækifæri á því. Þetta er mikil lífsreynsla að þurfa að standa á sínum eigin fótum í nýju landi og einnig mikið tækifæri að geta notað körfuboltahæfileikanna sína til að mennta sig.“

Ertu búin að bæta þig sem leikmaður?

„Mér finnst ég klárlega búin að bæta mig sem leikmaður hérna úti. Stíllinn í körfuboltanum er í sjálfu sér allt öðruvísi en maður er vanur heima þar sem það er miklu meiri agi og skipulag yfir öllu sem tengist körfuboltanum. Það fer alveg gríðalegur mikill tími í körfuboltann á hverjum degi þar sem það er allt gert til þess að gera mann að betri leikmanni og liðið að betri liðsheild. Því gefst mér endalaus tækifæri til að bæta veikleikana mína inn á vellinum.“

Hvernig leggst þetta tímabil í þig?

„Mér finnst við vera með mjög skemmtilegt lið þetta árið þar sem helmingurinn af liðinu er Evrópu og því spilum við meira með evrópskum stíl heldur en undanfarin tvö ár. Seinasta ár var mikil vonbrigði fyrir liðið en við vorum með mjög hæfileikaríkt lið en liðsheildin var ekki til staðar en þetta tímabil lengst mjög vel í mig. Við erum eins og staða en er í dag búin að vinna fyrstu tvo leikina okkar og erum með stóra leiki framundan þar sem við förum meðal annars til Alaska á mót núna í enda mánaðarins. Með hverju árinu fæ ég meiri ábyrgð og persónulega ætla ég að vera meiri leiðtogi inn á vellinum í ár og  að vera lykil leikmaður fyrir liðið mitt á eins mörgum sviðum körfuboltans eins og ég get.“

Viðtal: Eyþór Sæmundsson eythor@vf.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs