Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Stórsigur hjá Keflavík
Joey Gibbs skoraði tvö í kvöld og er markahæstur í Lengjudeildinni með sex mörk. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 17. júlí 2020 kl. 21:36

Stórsigur hjá Keflavík

Keflvíkingar kláruðu Þróttara á þrjátíu mínútum

Í Lengjudeild karla í knattspyrnu gerðu Keflvíkingar sér ferð í höfuðborgina og sóttu lið Þróttar heim í Laugardalinn. Þróttarar voru stigalausir eftir fyrstu fimm umferðirnar en Keflvíkingar sýndu hvorki miskunn né vanmat og mættu Þrótturum af fullum krafti frá fyrstu mínútu. Það tók ekki langan tíma að brjóta niður varnarmúra Þróttara, Joey Gibbs skallaði boltann í netið á 3. mínútu og kom Keflavík yfir. Stundarfjórðungi síðar bætti Adam Ægir Pálsson við marki þegar hann óð að teignum og gott skot hans hafnaði í markinu, 2:0. Adam Ægir var aðgangsharður upp við mark Þróttara því skömmu síðar átti hann skot í stöng og á 24. mínútu skoraði hann þriðja mark Keflvíkinga. Það var ljóst að Þróttarar voru ekki að fara að sækja sín fyrstu stig í kvöld og tveimur mínútum eftir að Adam Ægir skoraði þriðja markið mætti Joey Gibbs góðri fyrirgjöf og skallaði í netið. Það var ekkert lát á sókn Keflvíkinga og þeir sköpuðu sér fleiri færi en staðan 4:0 í hálfleik fyrir Keflavík.

Seinni hálfleikur var í raun aðeins formsatriði og Keflvíkingar slökuðu aðeins á en hefðu engu að síður getað bætt við mörkum. Adam Ægir var skeinuhættur og átti m.a. skot í stöng. Leiknum lauk með 4:0 sigri Keflvíkinga og með sigrinum koma þeir sér í efsta sæti Lengjudeildarinnar upp að hlið ÍBV og Fram. ÍBV á leik til góða, þeir mæta Þór fyrir norðan á morgun en Fram gerði 1:1 jafntefli við Grindavík í kvöld. Keflavík, ÍBV og Fram eru öll með þrettán stig en Keflvíkingar eru með besta markahlutfallið, eiga tólf mörk í plús á meðan ÍBV á sjö og Fram þrjú.

Public deli
Public deli