Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Íþróttir

Spennandi tímar framundan hjá GS
Fimmtudagur 27. desember 2018 kl. 11:26

Spennandi tímar framundan hjá GS

Nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Andrea Ásgrímsdóttir tekur við af Gunnari Jóhannssyni sem gegnt hefur starfinu síðan 2011. Gunnar var vallarstjóri í sjö ár á undan.

Fyrsta sunnudag í aðventu var aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja haldinn í golfskálanum í Leiru. Óvenju góð þátttaka var á fundinum enda hefur hann vanalega verið haldinn á mánudagskvöldi. Nýjar reglugerðir um helstu mót klúbbsins, Meistaramót og Stigamót Golfklúbbs Suðurnesja, voru lagðar fyrir fundinn og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið.

Ársreikningur félagsins kom fáum á óvart en tap var á rekstri golfklúbbsins þetta árið, 5,3 milljónir króna. Ekki var við öðru að búast eftir afar erfitt golftímabil, veðurguðirnir öfluðu sér engra sérstakra vinsælda meðal kylfinga þetta sumarið.

Á fundinu voru félagar heiðraðir samkvæmt venju en árlega eru valdir sjálfboðaliði ársins og kylfingur ársins. Sjálfboðaliði ársins er Heimir Hjartarson og uppskar hann mikið lófatak fundarmanna. Þegar kom að því að velja kylfing ársins var ákveðið að breyta út af vananum. Systurnar Zuzanna og Kinga Korpak hafa verið áberandi andlit Golfklúbbs Suðurnesja undanfarin ár. Fyrr í sumar tók fjölskylda þeirra sig til og flutti búferlum upp í Hvalfjarðasveit en þrátt fyrir flutninginn tilkynntu systurnar stjórn klúbbsins að þær muni leika áfram fyrir hönd GS, sú ákvörðun varð þess valdandi að ekki þótti annað hægt en að velja þær báðar sem kylfing ársins.

Stjórnarkjör

Jóhann Páll Kristbjörnsson var endurkjörinn formaður og er hann að hefja sitt fimmta ár sem formaður. Þá voru fjórir nýir kosnir í stjórn, þau Guðni Sigurðsson, Gunnar Þór Jóhannsson, John Berry og Sigríður Erlingsdóttir. Áfram sitja Helga Steinþórsdóttir, Sigurður Sigurðsson, Sigurrós Hrólfsdóttir og Sveinn Björnsson.

Framkvæmdastjóraskipti

Fyrsta verk nýrrar stjórnar var að ráða í stöðu framkvæmdastjóra klúbbsins. Andrea Ásgrímsdóttur mun taka við starfi framkvæmdastjóra af Gunnari Þór Jóhannssyni sem mun láta af störfum í lok febrúar eftir hafa starfað hjá klúbbnum síðan 2004, fyrst sem aðstoðarvallarstjóri og tók svo við sem vallarstjóri, frá árinu 2011 hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra. Gunnar hefur þó ekki látið af afskiptum af klúbbnum enda er hann nýr í stjórn.

Staða framkvæmdastjóra var auglýst laus til umsóknar í lok október og sóttu þrír um starfið. Andrea þótti þeirra hæfust en hún er menntaður PGA-golfkennari, með B.Sc. viðskiptafræðigráðu ásamt meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Þá hefur hún góða starfsreynslu sem mun klárlega nýtast í starfi, var mótastjóri Golfsambands Íslands og framkvæmdastjóri PGA á Íslandi auk þess að hafa kennt golf í Frakklandi og á Íslandi, bæði sem aðal- og aukastarf.

Kinga og Sveinn Andri í U18 landsliðið

Fyrir síðustu helgi valdi Jussi Pitkänen, landsliðsþjálfari Íslands, æfingahóp fyrir U18 ára landslið Íslands. Tveir kylfingar úr GS eru í hópnum, þau Kinga Korpak og Sveinn Andri Sigurpálsson sem bæði hafa staðið sig með eindæmum vel í keppnisgolfi í ár og enduðu bæði í þriðja sæti á stigalista Íslandsbankamótaraðarinnar.

johann@vf.is

Sveinn Andri og Kinga.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs