HS Veitur
HS Veitur

Íþróttir

Skyldusigur í Keflavík en óvænt tap fyrir norðan
Calvin Burks var atkvæðamestur í liði Keflavíkur í kvöld. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 6. janúar 2022 kl. 23:37

Skyldusigur í Keflavík en óvænt tap fyrir norðan

Topplið Keflavíkur bar sigurorð á Vestra sem situr í næstneðsta sæti Subway-deildar karla en á sama tíma töpuðu Grindvíkingar heldur betur óvænt fyrir Þór á Akureyri en Þór hafði tapað öllum sínum leikjum þar til í kvöld.

Keflavík - Vestri 78:71

(26:20, 18:13, 16:16, 18:22)

Jafnræði var á liðunum framan af fyrsta leikhluta, gestirnir leiddu drjúgan hluta hans en Keflvíkingar sneru stöðunni úr 13:18 í 20:18 á skömmum tíma og leiddu með sex stigum eftir leikhlutann (26:20).

Heimamenn héldu ágætis dampi í öðrum leikhluta og höfðu aukið forskotið í ellefu stig áður en flautan blés til hálfleiks, staðan 44:33.

Seinni hálfleikur var frekar tíðindalítill og leikur liðanna aldrei neinum hæðum gæðalega séð. Keflavík lék langt undir getu en sigurinn var þó aldrei í hættu.

Calvin Burks lét mest til sín taka í leiknum, með 23 stig og 23 framlagspunkta. Jaka Brodnik var með sextán stig og Domynikas Milka með fjórtán. Milka komst næstur Burks í framlagi með átján framlagspunkta, Hörður Axel Vilhjálmsson með sautján og Brodnik var með sextán.

David Okeke fylgdist með Keflvíkingum úr stúkunnni hann verður ekki meira með á þessari leiktíð eftir að hafa slitið hásin. Nýr leikmaður hjá Keflavík, Darius Tarvydas, var með liðinu á bekknum en hann var ekki kominn með leikheimild fyrir leikinn.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá myndir úr leiknum í myndasafni neðst á síðunni.


Ólafur Ólafsson í leik Grindavíkur og Þórs fyrr í vetur, þá hafði Grindavík betur 69:61.

Þór Akureyri - Grindavík 82:80

(19:20, 21:17, 21:24, 21:19)

Óvænt úrslit urðu þegar Grindvíkingar fóru norður á Akureyri í kvöld og léku gegn Þórsurum. Þór hafði tapað öllum sínum leikjum og sitja á botni deildarinnar en Grindavík er í þriðja sæti.

Grindvíkingar byrjuðu betur og komust í 4:12 en Þórsarar unnu þann mun upp og lauk fyrsta leikhluta með eins stigs forystu Grindavíkur, 19:20. Heimamenn sneru dæminu sér í vil í öðrum leikhluta og leiddu með þremur stigum í hálfleik, 40:37.

Leikurinn var hnífjafn og munaði aldrei meiru en þremur stigum á liðunum fyrr en undir miðjan þriðja leikhluta að Grindavík var komið með sex stiga forskot (45:51). Þá tóku Þórsarar til sinna ráða og í lok þriðja leikhluta var staðan hnífjöfn, 61:61.

Eftir að hafa skipst á forystunni í fjórða leikhluta komust heimamenn í sjö stiga forystu (77:70) en Grindvíkinga þjörmuðu að þeim í lokin og minnkuðu muninn í 81:80. Þá fengu Þórsarar tvö vítaköst enhittu aðeins úr öðru þeirra og forskot þeirra því aðeins tvö stig (82:80) en það dugði því ekki voru fleiri stig skoruð.

Ivan Aurrecoechea Alcolado, Ólafur Ólafsson og Elbert Clark Matthews voru skárstir í liði Grindavíkur, Alcolado með átján stig og 22 framlagspunkta, Ólafur með 20 stig og 21 í framlag, Matthews með sextán stig og fimmtán framlagspunkta.

Tengdar fréttir