Píratar
Píratar

Íþróttir

Sigurbjörn hættir með Grindavík eftir tímabilið
Sigurbjörn kveður Grindavík eftir tímabilið.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 1. september 2021 kl. 19:46

Sigurbjörn hættir með Grindavík eftir tímabilið

Sigurbjörn Hreiðarsson mun láta af störfum sem þjálfari Grindvíkinga í meistaraflokki karla í knattspyrnu eftir að yfirstandandi tímabili í Lengjudeildinni lýkur. Sigurbjörn tók við Grindavík haustið 2019 eftir að liðið féll úr efstu deild.

Gindvíkingar enduðu í fjórða sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð og sitja nú í áttunda sæti þegar þrír leikir eru eftir.

Samningur Sigurbjörns rennur út að loknu yfirstandandi tímabili en það var sameiginleg ákvörðun hans og stjórnar knattspyrnudeildar Grindavíkur að endurnýja ekki samstarfið. Aðstoðarþjálfari Sigurbjörns, Ólafur Brynjólfsson, mun einnig láta af störfum á sama tíma.

Viðreisn
Viðreisn

Knattspyrnudeild Grindavíkur tilkynnti þetta rétt í þessu á Facebook-síðu sinni og þar er haft eftir Sigurbirni: „Þetta hefur verið góður tími í Grindavík. Hér er frábær aðstaða, flott umgjörð og mjög skemmtilegur leikmannahópur. Sumarið hefur því miður verið svolítið stöngin út hjá okkur hvað varðar úrslit. Við fórum vel af stað og komum okkur í góða stöðu til að berjast um sæti í efstu deild. Það hefur hins vegar fátt fallið með okkur á síðustu tveimur mánuðum. Við þjálfarateymið fundum að verkefnið var ekki á réttri leið og óskuðum því ekki eftir því að halda áfram. Við förum með góðar minningar frá Grindavík og ætlum okkur að enda tímabilið með jákvæðum hætti.“

Að lokum þakkar stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur þeim Sigurbirni og Ólafi fyrir samstarfið. „Framundan eru þrír spennandi leikir á tímabilinu og munum við kveðja þjálfarateymið á lokahófinu þann 18. september.“

Jafnframt segir að leit af eftirmönnum þeirra Sigurbjörns og Ólafs mun hefjast að loknu keppnistímabili.