Íþróttir

Rífandi gangur hjá sundfólki ÍRB
Árni Þór bætti met í 200 metra skriðsundi.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 20. október 2021 kl. 12:39

Rífandi gangur hjá sundfólki ÍRB

Það var sannarlega góð útkoma hjá sundmönnum ÍRB á Extramóti Sundfélags Hafnarfjarðar helgina 16.–17. október. Tveir sundmenn náðu sínum fyrstu ÍM 25 lágmörkum, það voru þau Freydís Lilja Bergþórsdóttir og Nikolai Leo Jónsson. Árni Þór Pálmason lét sitt ekki eftir liggja heldur bætti ÍRB metið í 200 metra skriðsundi í flokki 11–12 ára sveina.

Mörg athyglisverð og sterk úrslit litu dagsins ljós og línur teknar að skýrast fyrir ÍM 25. Alexander Logi Jónsson fékk sérstök verðlaun fyrir bætingu á milli móta í 800 metra skriðsundi og þær Eva Margrét Falsdóttir og Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir fengu peningaverðlaun fyrir að vera í topp tíu af bestu afrekum mótsins, Eva Margrét varð í þriðja sæti en Sunneva Bergmann varð í sjöunda sæti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Margir sundmenn eru alveg við innanfélagsmet í aldursflokkum og stemmningin og liðsheildin er til fyrirmyndar í sunddeild ÍRB. Næsta mót er svo Íslandsmótið í 25 metra laug dagana 12.–14. nóvember.

Alexander Logi fékk sérstök verðlaun fyrir bætingu.


Sunneva og Eva Margrét.