Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Íþróttir

Páll varði Reykjavíkurleikatitilinn
Frændurnir Páll Árni og Hörður Þór Guðjónsson ásamt Martin Adams og Ross Montgomery sem þeir mættu í 8 liða úrslitum á Scottish open 2020 í tvímenningi, það er það lengsta sem Íslendingar hafa náð á þessu móti. Martin og Ross höfðu unnið Hollenska opna í tvímenningi tveimur vikum áður.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 12. febrúar 2021 kl. 08:32

Páll varði Reykjavíkurleikatitilinn

Pílukastið hittir í mark í Grindavík

Vinsældir pílukasts hafa verið að aukast síðustu misseri og fjöldi manns hefur tekið upp þetta skemmtilega sport. Einn þeirra er Grindvíkingurinn Páll Árni Pétursson, stýrimaður á Sturlu GK-12, sem varði titil sinn á Reykjavíkurleikunum (Reykjavík International Games, RIG) um þarsíðustu helgi. Hjá Pílufélagi Grindavíkur hefur pílukast verið á mikilli uppleið síðustu ár og Grindavík fengið það orð á sig að vera Mekka píluíþróttarinnar á Íslandi. Við tókum tal af Páli Árna, sigurvegara RIG 2021.

„Ég er ekki búinn að vera lengi í pílunni, ekki þannig, ég byrjaði að kasta 2011 en þá var ég á frystitogara sjö til átta mánuði á ári, svo maður hefur ekki alltaf getað kastað,“ segir Páll. „Maður kastar lítið um borð en það var aðeins gert í seinni tíð eftir að við settum upp spjald, þá var hægt að kasta einhverja daga á sumrin.“

– En hvenær byrjaðir þú að keppa?

„Ég fór nú bara að keppa fljótlega eftir að ég byrjaði. Ég er kominn af miklu pílufólki. Pabbi minn [Pétur Hauksson] varð Íslandsmeistari ‘88 og Guðjón, bróðir hans, varð margfaldur Íslandsmeistari.“

– Hefur ekki orðið mikil vakning í þessu sporti?

„Jú, alveg svakaleg og hefur aukist mjög mikið síðustu tvö árin. Það kom alger bomba eftir heimsmeistaramótið og svo aftur núna. Við erum örugglega í kringum hundrað manns sem erum skráð í félagið, m.a. mættu þarna um fjörutíu konur og skráðu sig í félagið fyrir áramót.

Félagsstarfið hefur aðeins legið niðri undanfarið enda höfum við ekki getað verið með opin kvöld eða neitt þannig út af þessum takmörkunum.“

Páll hefur kynnst mörgum þekktum pílukösturum á mótum erlendis (talið frá vinstri): Páll með Paul Lim þegar hann fór í Landsliðsferð til Rúmeníu 2019. // Páll með Jim Williams á Scottish Open 2020, Jim keppti til úrslita á heimsmeistaramóti BDO 2020 gegn Wayne Warren. // Páll með hinni heimsþekktu Fallon Sherrock sem varð fyrst kvenna til að vinna leik í PDC heimsmeistarakeppninni árið 2019. Hún vann tvo fyrstu leikina og datt úr í þriðju umferð. // Páll með Wayne Warren á Scottish Open 2020. Warren varð heimsmeistari BDO 2020.

Fór létt með Íslandsmeistarann

Aðspurður segist Páll Árni hafa orðið deildarmeistari með liði Pílufélags Grindavíkur síðustu tvö ár en hann keppir einnig með landsliði Íslands og hefur staðið sig ágætlega á mótum með því.

„Ég tók þátt í einmenningsmóti í Rúmeníu og þar komst ég lengst okkar Íslendinganna. Svo fór ég á Skoska opna í febrúar fyrir ári síðan, þá komst ég aftur lengst okkar íslensku keppendanna og datt út í þriðju umferð en það voru eitthvað um þúsund keppendur. Ég og Hörður, frændi minn og sonur Guðjóns, kepptum einnig í tvímenningi í þessu móti og komumst í átta liða úrslit. Það er það lengsta sem Íslendingar hafa náð held ég.“

Í úrslitaviðureign Reykjavíkurleikanna mætti Páll Íslandsmeistaranum frá því í fyrra, Matthíasi Erni Friðrikssyni sem er einnig frá Grindavík. Úrslitaleikurinn varð aldrei spennandi því Páll sigraði auðveldlega, 7:1.

„Það gekk bara allt upp hjá mér og ég hleypti honum aldrei almennilega í leikinn. Hann átti aldrei séns, þannig.“

– Ef maður ætlar að byrja í pílu, er þetta ekki bara að taka upp pílur og byrja?

„Bara setja upp spjald og byrja að kasta. Það eru til fjölmargir leikir sem hægt er að spila, ekki bara 501 heldur fullt af öðrum skemmtilegum leikjum.“

– Er eitthvað ungmennastarf í gangi hjá ykkur?

„Já, við erum með unglingapílu heima og vorum með fyrir yngri krakka um daginn. Það var mjög vel sótt, komu einhverjir tuttugu krakkar og voru að kasta í aðstöðunni okkar. Pétur Rúðrik Guðmundsson hefur verið að halda utan um þessa yngri hópa og gert það vel.“

Páll, sem situr í stjórn pílufélagsins, segir alla aðstöðu í Grindavík til að stunda pílukast vera mjög góða. Hann er þegar þetta er skrifað kominn á sjóinn en er hættur á frystitogurunum og kominn á ísfisktogara. Þar eru landlegurnar fleiri þó þær séu styttri en á frystitogurunum.

„Íslandsmótið er í maí og ég ætla að stíla inn á að taka þátt í því – fyrst maður tók Íslandsmeistarann núna er annað eiginlega ekki hægt. Stíla inn á að vera í fríi og koma í land aðeins fyrir mót, ná úr sér mestu sjóriðunni og koma sér í gírinn.“