Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

Nýir yfirþjáfarar hjá Crossfit Suðurnes
Þeir Árni Freyr Bjarnason (t.h.) og Daði Daníelsson (t.v.) eru nýir stjórnendur og yfirþjálfarar Crossfit Suðurnes sem starfrækt er í Sporthúsinu í Reykjanesbæ.
Þriðjudagur 12. mars 2019 kl. 06:00

Nýir yfirþjáfarar hjá Crossfit Suðurnes

Þeir Árni Freyr Bjarnason og Daði Daníelsson eru nýir stjórnendur og yfirþjálfarar Crossfit Suðurnes sem starfrækt er í Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Þeir taka við keflinu af þeim Andra Þór Guðjónssyni og Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur sem hafa látið af yfirþjálfun vegna anna á öðrum vígstöðvum. Þeir Árni og Daði koma báðir frá Crossfit Sport, sem er Crossfit-stöð Sporthússins í Kópavogi en þeir hafa stýrt þeirri stöð um árabil.
 
„Þau Andri og Sara hafa unnið öflugt uppbyggingarstarf hérna í langan tíma sem við erum ánægðir með,“ segja þeir Árni og Daði sem segjast þó opnir fyrir breytingum. Þeirra sýn sé m.a. að samtvinna starfsemina í Crossfit Suðurnes og Crossfit Sport, þaðan sem þeir koma, eins mikið og mögulegt er.
 
Ari tekur undir með þeim félögum og segir þau Andra og Söru hafa unnið gríðarmikið starf fyrir Sporthúsið og Crossfit Suðurnes. „Nú ætli þau hins vegar að einbeita sér enn betur að sinni aðalvinnu. Þau munu áfram þjálfa hjá okkur þó þau séu ekki beinir leiðtogar líkt og áður.“  Ari segist sjá mikil tækifæri með innkomu þeirra Árna og Daða og þess drifkrafts sem þeir hafa. „Það fylgir ný sýn nýjum mönnum og því fylgja örugglega breytingar. Okkar vilji liggur í nánari samvinnu þessara tveggja Crossfit-stöðva,“ segir Ari.
 
- Hvernig ber fólk sig að ef það vill byrja í Crossfit?
„Þá er að skrá sig á grunnnámskeið. Við bjóðum upp á nýtt grunnnámskeið sem stendur yfir í fjórar vikur og því fylgja einnig fjórar vikur í almennri Crossfit-þjálfun í framhaldi. Á grunnnámskeiðinu kennum við tæknina og allt það sem við notum. Þetta er hörkuþjálfun og getur verið erfitt. Fólk getur komist í gott form bara með því að sækja grunnnámskeið,“ segir Daði.
„Það eru flestir sammála um það af ef maður ætlar að vera í góðu formi og lifa heilbrigðum lífsstíl þá er ekki nóg að æfa bara í janúar og ágúst. Það þarf að gera nokkuð þétt yfir allt árið. Að æfa tvisvar til fjórum sinnum í viku yfir allt árið er eitthvað sem fleiri eru að átta sig á að er nauðsynlegt til að vera í góðu líkamlegu formi,“ segir Árni.
 
„Við hjá Crossfit Suðurnes og Crossfit Sport erum að þjálfa fólk og hjálpa því að komast í betra form og stuðla að meira heilbrigði og betri lífsgæðum. Við leggjum upp með það að fólk æfi allan ársins hring, tvö til fjögur skipti í viku. Það er línan í þessum góða lífsstíl. Fólk sem vill svo ná lengra bætir við æfingum og æfir allt að sex sinnum í viku. Grunnnámskeiðið er hins vegar inngangurinn í þennan lífsstíl og þessa þjálfun, þrisvar sinnum í viku í fjórar vikur. Eftir grunnnámskeiðið fylgir svo mánuður til viðbótar í almennri Crossfit-þjálfun,“ segir Árni. Hann bætir við að mörg getustig séu í boði en lagt er upp með það að allir geti æft Crossfit og gert sömu æfingar, hvort sem þeir séu nýir í sportinu eða hafi æft lengi.
 
Skipulagðir tímar í Crossfit eru kl. 6 að morgni, í hádeginu og aftur seinnipartinn. Þá er markmið að vera með fleiri tíma á morgnana og stærri hádegistíma. Grunnnámskeiðið hefur verið kennt kl. 19:30 á kvöldin en nú verður einnig í boði tími kl. 11:00 fyrir hádegi, sem hentar m.a. vaktavinnufólki. Þetta gefur viðskiptavinum einnig meiri sveigjanleika þar sem þeir hafa nú þann möguleika á að hoppa á milli 11:00 og 19:30 tímanna í námskeiðinu í samráði við þjálfara. Á þeim tímum sem ekki er skipulagður tími er opinn salur, eða „Open Gym“, og þeir sem skráðir eru í Crossfit Suðurnes geta æft að vild.
 
„Það á enginn að vera feiminn við að prófa Crossfit. Það hefur verið misskilningur hjá fólki sem hefur fyrst farið á önnur námskeið til að koma sér í form til að fara í Crossfit. Stærsti hlutinn af Crossfit er hefðbundin þjálfun og hún er fyrir alla á öllum getustigum og skiptir ekki máli hvaðan þú ert að koma, hvort sem þú hefur verið á sófanum síðustu tíu ár eða æft íþróttir alla ævi,“ segja þeir félagar Árni og Daði í Crossfit Suðurnes.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs