Íþróttir

Njarðvíkingar unnu baráttuna um bæinn
Kenneth Hogg fagnar mögnuðu marki sínu í upphafi framlengingar.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 28. maí 2019 kl. 23:51

Njarðvíkingar unnu baráttuna um bæinn

Komnir í 8 liða úrslit Mjólkurbikarkeppninnar

„Við erum að toppa okkur leik eftir leik. Þetta er bara frábært, Njarðvík í fyrsta skipti í 8 liða úrslit bikarkeppninnar og að vinna í Keflavík, það er eitthvað,“ sagði Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkinga sem lögðu nágrannana úr Keflavík í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar á Nettó-vellinum í gær.

Bæði lið áttu góð færi í leiknum og Njarðvíkingar líklega aðeins fleiri því Sindri Keflavíkurmarkvörður þurfti nokkrum sinnum að taka fram sparihanskana en hann varði nokkrum sinnum vel. Keflavík lék undan vindinum í síðari hálfleik og pressaði stíft og var nokkrum sinnum nálægt því að setja boltann inn fyrir marklínu þeirra grænu en Brynjar Atli Bragason stóð vaktina með prýði í marki Njarðvíkur.

Það var svo Skotinn Kenneth Hogg sem skoraði frekar magnað sigurmark í upphafi framlengingar. Hann fékk boltann hægra megin á vellinum nokkuð fyrir utan teig og lét vaða. Boltinn flaug og kannski hjálpaði vindurinn honum að breyta aðeins um stefnu því Sindri náði ekki að verja þetta langa skot, eitthvað sem hann hafði verið að gera allan leikinn. Rafn Markús þjálfari UMFN sagði eftir leikinn að hugsanlega hafi meiðsl Sindra haft einhver áhrif en skömmu áður hafði hann lent í óhappi í leiknum en lék samt áfram.

Keflvíkingar sóttu nokkuð stíft í lokin en náðu ekki að skapa sér alvöru færi í framlengingunni. Litli bróðir úr Njarðvík fór því með sigur af hólmi og sæti í 8 liða úrslitum bíður þeirra.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grindvíkingar léku við 2. deildarlið Vestra og unnu 3-1 í Grindavík og eru komnir í 8 liða úrslitin eins og UMFN.
VF ræddi við Rafn Markús eftir leikinn en hann var í greinilegri sigurvímu.

Keflavík-Njarðvík 16 liða bikarúrslit 2019