Íþróttir

Misjafnt gengi Suðurnesjafólks í körfuboltanum ytra
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 9. febrúar 2021 kl. 18:18

Misjafnt gengi Suðurnesjafólks í körfuboltanum ytra

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson skoraði tólf stig í góðum sigri Fraport Skyliners í þýsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Lokatölur urðu 72:96. Jón Axel og félagar hans í Skyliners eru í 8.–9. sæti deildarinnar með sjö sigra og níu töp.

Elvar Már Friðriksson hefur heldur betur fundið sig í LKL-deildinni í körfubolta í Litháen en liðinu sem hann leikur með ekki eins vel. Siauliai tapaði fyrir Vilnius Rytas 85:98 um síðustu helgi. Njarðvíkingurinn lék í 29 mínútur og skoraði átján stig og tók fimm fráköst.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir stundar nám í Bandaríkjunum og leikur með háskólaliði Ball State Cardinals. Liðið tapaði í vikunni fyrir Norhern Illinois Huskies í háskóla síðasta mánudag 78:74. Thelma Dís lék í 38 mínútur og skoraði átta stig, tók fjögur fráköst, gaf tvær stoðsendingar og stal boltanum einu sinni.

Tvíburasysturnar úr Keflavík, Sara Rún og Bríet Sif Hinriksdætur og Emilía Ósk Gunnarsdóttir léku með landsliðinu í undankeppni EM í körfubolta kvenna um síðustu helgi. Ísland tapaði báðum leikjunum, gegn Grikkjum og Slóvenum. Sara Rún, einn besti leikmaður liðsins, meiddist í upphafi seinni leiksins gegn Grikkjum.

Sara Rún fær aðhlynningu eftir að hafa orðið fyrir meiðslum.