Íþróttir

Miklar breytingar hjá grindvískum körfuknattleiksliðum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 27. janúar 2025 kl. 16:19

Miklar breytingar hjá grindvískum körfuknattleiksliðum

Grindvíkingar hafa farið hamförum á leikmannamarkaðinum í körfuknattleiknum að undanförnu en um helgina var tilkynnt um komur þriggja leikmanna í karlaliðið og einn leikmaður bætist í kvennaliðið. Ekki er langt síðan kvennaliðið gerði tvær breytingar á erlendum leikmönnum liðsins. Hjá karlaliðinu eru það heimamennirnir Bragi Guðmundsson og Arnór Tristan Helgason sem snúa til baka eftir dvöl í Bandaríkjunum og á Tenerife, og Bandaríkjamaðurinn Jeremy Pargo. Hjá kvennaliðinu voru Grindvíkingar snöggir að stökkva til þegar Enu Vizo var sagt upp hjá kvennaliði Njarðvíkur.

Ekki þarf að kynna Braga og Arnór Tristan, báðir bráðefnilegir grindvískir leikmenn en Bragi hefur verið í Bandaríkjunum sl eitt og hálf ár þar sem hann stundaði nám og lék körfuknattleik við bestu skilyrði, og Arnór Tristan ákvað að freista gæfunnar á Tenerife á þessu tímabili. Báðir koma þeir reynslunni ríkari og munu styrkja Grindvíkinga.

Bragi Guðmundsson
Arnór Tristan í leik með Grindavík í Grindavík á seinasta tímabili, skömmu fyrir rýminguna 10. nóvember.

Líklega er ekki á neinn erlendan leikmann hallað ef því sé haldið fram að Jeremy Pargo sé með þekktasta „prófil“ leikmanns sem hefur komið til Íslands að leika körfuknattleik. Pargo var ekki valinn í NBA nýliðavalinu eftir útskrift 2009 svo hann hóf atvinnuferil sinn í Ísrael en tveimur árum síðar komst hann á samning hjá Mempis Grizzlies og lék með þeim, Cleveland Cavaliers og Philadelpha 76ers næstu tímabil. M.a. lék hann um tuttugu mínútur að meðaltali með Cleveland Cavaliers. Evrópa heillaði aftur en svo lék hann með Golden state Warriors 20/21 tímabilið en á milli tímabila í NBA lék hann í sterkustu deildum Evrópu.

Ena Vizo.

Uppsögn Ena Vizo hjá Njarðvík kom mörgum á óvart en Grindvíkingar voru fljótir að stökkva til og bætist hún í hóp þriggja erlendra leikmanna. Grindvíkingar kynntu til leiks nýjan bandarískan leikmann eftir áramót, Daisha Bradford auk þess sem Mariana Duran sem er frá Venúsela en leikur á spænsku vegabréfi, bættist í hópinn.

Það er greinilegt að Grindavík ætlar sér alla leið í vor.