Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Mikill áhugi á pílukasti í Grindavík
Laugardagur 9. apríl 2022 kl. 10:30

Mikill áhugi á pílukasti í Grindavík

Púlsinn tekinn á pílukastinu í Grindavík en á sama tíma var Grindavík Open haldið í glæsilegri aðstöðu Pílukastfélags Grindavíkur.

„Þar verð ég að reyna sýna mitt rétta andlit og verða þrefaldur Íslandsmeistari, það hljómar mjög vel! Draumurinn er auðvitað að keppa í „Ally pally“ á heimsmeistaramótinu en það er erfitt að komast þangað inn,“ segir tvöfaldur Íslandsmeistari, Matthías Örn Friðriksson.

Uppgangur pílukastsíþróttarinnar hefur verið mikill undanfarin ár og má líklega rekja þennan aukna áhuga til beinna útsendinga Stöðvar 2 sports frá heimsmeistaramótinu í pílu sem fer fram í desember til janúar ár hvert en þessar beinu útsendingar hófust fyrir þremur árum síðan. 

Public deli
Public deli

Góðir Grindvíkingar

Grindvíkingar hafa lengi staðið á meðal þeirra fremstu en fyrsti Íslandsmeistarinn er þaðan en það var Sveinbjörn Ægir Ágústsson sem landaði þeim stóra 1985 og 1986. Pétur og Guðjón Haukssynir, sömuleiðis frá Grindavík tóku þá við keflinu en sá síðarnefndi er sigursælasti pílukastari Íslands frá upphafi, hefur landið heilum 11 titlum. Allt í allt eiga Grindvíkingar fimm Íslandsmeistara en Pétur Guðmundsson landaði titlinum árið 2017 og síðast en ekki síst eiga Grindvíkingar ríkjandi Íslandsmeistara, Matthías Örn Friðriksson, en hann hefur landað þeim stóra undanfarin tvö ár og stefnir að sjálfsögðu á að halda titlinum þegar næsta Íslandsmót fer fram í maí.

Víkurfréttir tóku hús á nokkrum af þessum meisturum og enn einn meistarinn hefur bæst í hópinn, Páll Árni Pétursson (sonur Péturs Haukssonar) en hann vann árlegt stórmót, RIG (Reykjavík international games), tvö ár í röð, 2020 og 2021. Seinna árið vann hann einmitt Íslandsmeistarann Matthías Örn í úrslitaleik. Matti launaði honum svo lambið gráa í úrslitaleik Íslandsmótsins þegar hann vann Pál nokkrum mánuðum síðar.

Það var kjörið að „slá tvær flugur í sama höfuðið“ en spjallið var tekið á árlegu móti sem Grindvíkingar hafa haldið til fjölda ára, Grindavík open. Þá mæta 64 pílukastarar víðsvegar að af landinu og etja kappi í átta riðlum þar sem fjórir efstu úr hverjum riðli komast í A-úrslit og þeir neðri mætast í B-úrslitum. Í sextán manna úrslitum er barist til síðustu pílu og það stefndi allt í að Grindvíkingar myndu eiga sigurvegarann en goðsögnin Guðjón Hauksson var kominn í 5:2 forystu (það þurfti að vinna sex leggi) á móti Hallgrími Egilssyni og var kominn í útskot (til að klára legg í pílu þá þarf að hitta í tvöfalda tölu) en Guðjón klikkaði, Hallgrími óx ásmegin og vann að lokum, 6:5. Grindvíkingar vilja eflaust halda því fram að þeir hefðu átt sigurvegarann ef Matthías Örn hefði tekið þátt en hann var veikur og átti því ekki heimangengt. Frænkurnar Ef og Hefði hafa bara aldrei spilað sterkt mót og hvað þá í pílu og því var Hallgrímur Egilsson krýndur sigurvegari í mótslok. Ingibjörg Magnúsdóttir landaði titlinum kvennamegin eftir sannfærandi 6:0 sigur á Brynju Herborgu Jónsdóttur.

Gamli meistarinn með „kombakk“

Það lá beinast við að hefja spjallið við goðsögnina Guðjón Hauksson en eins og áður kom fram er Guðjón sigursælasti pílukastari Íslands frá upphafi með ellefu titla. Sá síðasti kom árið 2008 en eftir að Hörður, sonur hans, komst á bragðið, þá kom áhugi pabba gamla aftur og hver veit nema Guðjón muni gera atlögu að tólfta titlinum í náinni framtíð!

„Það er nú kannski djúpt í árina tekið að ég sé guðfaðir pílunnar hér í Grindavík. Ægir varð fyrsti Íslandsmeistarinn árið 1985 og endurtók leikinn ári síðar. Svo komum við bræður, Pétur vann ‘88 og ég landaði mínum fyrsta titli árið 1990. Ég var ansi sterkur á tíunda áratugnum og í upphafi þessarar aldar og landaði þá ófáum titlunum og sá síðasti kom árið 2008 en í heildina eru þeir orðnir ellefu. Svo slökknaði eitthvað á áhuganum en eftir að Hörður, sonur minn, byrjaði þá kviknaði á einhverjum neista og ég er kominn á fullt aftur. Það er gaman að etja kappi við þessa ungu stráka en það er greinilegt að framtíð pílunnar er mjög björt, ekki síst hér í Grindavík. Sjáum til hvort ég reyni ekki að stríða þessum ungu pjökkum í framtíðinni.“



Unglingalandsliðsþjálfarinn

Næstur mætti á sviðið Pétur Rúðrik Guðmundsson en fyrir utan að hafa landað Íslandsmeistaratitlinum árið 2017 er Pétur núverandi unglingalandsliðsþjálfari en sonur hans, Alex Máni, er á meðal efnilegri pílukastara landsins.

„Ég tók að mér starf unglingalandsliðsþjálfara 2016–2017 en pílan fer kannski aðrar leiðir en aðrar íþróttir þar sem börn og unglingar byrja að iðka sína íþrótt í gegnum sín félög, veljast síðan í landslið. Unglingastarf hefur til þessa ekki verið mjög öflugt og því byrjuðu krakkarnir kannski á öfugum enda, byrjuðu að æfa í gegnum landslið. Í pílunni er miklu stærra aldursbil heldur en í öðrum greinum en þar getur tíu ára stelpa keppt við átján ára strák og t.d. varð ég vitni að stórkostlegum leik tíu ára kínverskrar stúlku sem tapaði í spennandi leik á móti fjórtán ára pilti frá okkur. Ég ætlaði að reyna hughreysta þá kínversku eftir tapið en það sauð á henni, hún var brjáluð yfir að hafa tapað. Við hér á Íslandi ákváðum að skipta þessu aðeins upp, látum níu til tólf ára keppa og svo þrettán til átján ára, svo eru hugmyndir með að búa til auka flokk áður en haldið er upp í meistaraflokkinn, þ.e. að nítján til 21 árs geti keppt sín á milli. Það er mjög gaman að taka þátt í þessu starfi í dag því áhuginn hefur rokið upp úr öllu valdi og ég get ekki séð annað en pílunni muni vaxa fiskur um hrygg í nánustu framtíð,“ segir Pétur sem lék einnig lengi með meistaraflokki Grindavíkur í körfubolta.



Stýrimaðurinn með píluna

Meistarinn sem væri hugsanlega meiri meistari ef ekki fyrir mikla sjósókn en Páll Árni er stýrimaður á Sturlu GK frá Grindavík. Hann á ekki langt að sækja píluhæfileikana.

„Ég veit nú ekkert hvort ég er vonarstjarna okkar Grindvíkinga í Grindavík Open fyrst Matti er ekki með, við erum nokkrir líklegir úr minni ætt en það eru komnir mjög margir góðir pílukastarar úr Grindavík en ég mæti að sjálfsögðu ekki bara til að vera með, stefni auðvitað á sigur. Það hefði verið gaman að hafa Matta með en það er ekki nokkur spurning, hann er okkar besti pílukastari í dag enda tvöfaldur Íslandsmeistari. Ég vann hann í RIG í fyrra en hann vann mig síðan í úrslitum Íslandsmótsins nokkrum mánuðum síðar. Það styttist í næsta Íslandsmót, ég er ekki að fara mæta í það bara til að vera með.“

Kom til að spila fótbolta

Síðast en ekki síst mætti sjálfur núverandi Íslandsmeistarinn og það tvöfaldur, Matthías Örn Friðriksson. Segja má að Matthías eigi nokkurn þátt í uppgangi píluíþróttarinnar því hann braut í raun blað árið 2017 þegar hann hóf beinar útsendingar á YouTube frá pílumótum. Þær útsendingar spiluðu líklega inn í áhuga Stöð 2 sport á að sýna frá heimsmeistaramótinu en þá virkilega tókst píluvélin á loft:

„Það er rétt, ég er tvöfaldur Íslandsmeistari en Íslandsmótið í ár verður um miðjan maí og haldið á Bulls Eye, þar verð ég að reyna sýna mitt rétta andlit og verða þrefaldur Íslandsmeistari, það hljómar mjög vel. Auðvitað vil ég stefna að sem flestum titlum en ég vil líka reyna að hjálpa íþróttinni, koma henni á hærra plan og fá fleiri inn. Það er mikil gróska í unglingastarfinu og t.d. er unglingamót hér í Grindavík um helgina. Þar er framtíðin en að sjálfsögðu stefni ég sjálfur eins langt og ég get náð. Draumurinn er auðvitað að keppa í „Ally pally“ á heimsmeistaramótinu en það er erfitt að komast þangað inn. Raunhæfara markmið er kannski að vinna PDC (Professional dart corportation) en þetta er hluti af heimsmótaröð þar sem bestu pílukastarar heimsins fá að keppa en ég er t.d. að keppa í gegnum Norðurlandamótaröð þar sem efsti Íslendingurinn verður á meðal þeirra átta sem fá keppnisrétt, ég stend vel að vígi þegar tvö mót eru eftir og stefni að sjálfsögðu á að klára það og keppa á lokamótinu sem verður haldið í Kaupmannahöfn í júní.“

Matthías kom upphaflega til Grindavíkur til að spila knattspyrnu og það var í gegnum liðsfélaga, Scott Ramsey, sem hann fór að gefa pílunni gaum en hvað þarf til að verða góður pílukastari?

„Ég flutti til Grindavíkur 2011 og fljótlega kynnti Scotty mig fyrir þessari íþrótt, sem ég hélt í fyrstu að væri engin íþrótt – en ég varð fljótlega hugfanginn og byrjaði að kasta en það er með þessa íþrótt eins og sjálfsagt allar, maður þarf að æfa mjög mikið og þetta er mikil þolinmæðisvinna. Ég landaði fyrsta Íslandsmeistaratitlinum átta árum eftir að ég byrjaði og lagði mjög mikið á mig á þeim tíma, maður uppsker eins og maður sáir í þessu eins og svo mörgu.“

Matti lítur framtíð pílunnar á Íslandi björtum augum.

„Auðvitað stefni ég á „Ally pally“ en ef það verður ekki ég, þá mun pottþétt einhver ungur komast þangað því það sem ég sé, þau eru ofboðslega efnileg, með tæknina upp á tíu og það gildir bara að öðlast keppnisreynslu, ég er sannfærður um að við munum sjá einhvern drenginn eða stúlkuna keppa á HM í pílu innan tíðar!“

Texti og myndir: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson.

Matthías mundar píluna.