Íþróttir

Með ástríðu fyrir íþróttum
Einar Þór Björgvinsson er sjónvarpsstjóri Keflavík TV og hann elskar íþróttir. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 31. júlí 2021 kl. 08:38

Með ástríðu fyrir íþróttum

Fjölmargir hafa fylgst með kappleikjum Keflavíkur sem hafa verið sýndir beint á netinu. Einar Þór Björgvinsson rekur sjónvarpsstöðina Keflavík TV og er einn brautryðjanda í því að sýna beint frá kappleikjum á netinu. Eins og nafnið gefur til kynna hefur Keflavík TV sýnt frá leikjum Keflavíkur – bæði í fótbolta og körfubolta. Einar byrjaði að fikta við þetta fyrir nokkrum árum og síðan þá hefur verkefnið undið upp á sig og er orðið heilmikið fyrirtæki í dag. Víkurfréttir ræddu við Einar Þór og Konráð Ólaf Eysteinsson sem hefur lýst leikjum af mikilli innlifun á Keflavík TV.

„Ég var að fikta við þetta í svona tvö ár fyrir Nes svo fór sjónvarpsferillinn af stað hjá mér með Keflavík TV. Í júlí 2017 byrjaði ég með YouTube-rás, Keflavík TV, og þá fóru hjólin að snúast. Við fengum eitthvað um 150 áskrifendur á fyrsta eina og hálfa árinu. Núna erum við komnir upp í 1.100 áskrifendur,“ segir Einar sem hefur verið iðinn við að streyma frá íþróttaviðburðum Keflvíkinga undanfarin ár.

Keflavík TV fjögurra ára

„Stöðin er fjögurra ára, verður fimm ára á næsta ári,“ segir sjónvarpsstjórinn. „Við byrjuðum með litla Canon-heimilisvél í tvö, þrjú ár. Svo fór fórum við í alvöru 4K Sony-vél. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það var Gunnar Magnús Jónsson [þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Keflavík] sem plataði mig fyrst í þetta, fékk mig til að sýna leiki frá kvennaboltanum í Inkasso-deildinni. Svo plataði Eysteinn [þjálfari meistaraflokks karla] mig í að sýna frá karlaboltanum líka.“

Sindri Kristinn Ólafsson [markvörður Keflavíkur] fékk Einar yfir í að mynda körfuboltann 2019. „Það var svolítið erfitt fyrir mig því þá voru Keflavík og Njarðvík að spila, sem var svolítið erfitt fyrir mig því ég mátti ekki öskra „áfram Keflavík“. Það var svolítið erfitt en hafðist og þegar leikurinn var búinn þá ákvað ég að ég þyrfti að vera hlutlaus í framtíðinni – svo ég missi mig ekki aftur og öskri „áfram Keflavík“,“ segir Einar hlæjandi.

Það er augljóst að Einar hefur rosalega gaman að því sem hann fæst við, að sýna frá íþróttaviðburðum og hann er að þessu með hjartanu og sálinni.

„Það er alltaf að verða meira og meira að gera. Þegar Covid-takmarkanir voru í gangi vorum við beðnir um að sýna karla- og kvennaleiki þegar Stöð 2 Sport var ekki að sýna. Þá höfðum við bara aðgang að þráðlausu net sem var hinum megin í íþróttahúsinu og það var svolítið höktandi. Ég bölvaði þessu í sand og ösku og talaði við Einar Haralds [formann og framkvæmdastjóra Keflavíkur] og ég sagði bara við hann: „Heyrðu, við viljum fá beintengingu hér!“ og benti á staðinn sem ég vildi fá tengilinn. Það var komið daginn eftir – það er allt gert fyrir mig.“

Einar og Konni eru perluvinir með sameiginlegt áhugamál.


Eins og Rikki G eða Gummi Ben

Einar og Konráð Ólaf Eysteinsson kynntust þegar þeir unnu saman í Dósaseli og þeirra vinskapur hefur bara vaxið með árunum þótt annar sé Keflvíkingur og hinn Njarðvíkingur. Skömmu eftir að Einar byrjaði með Keflavík TV fékk hann Konna vin sinn til að lýsa leik milli Keflavíkur og Nes. Það var árið 2017.

„Svo 2018 bað hann mig að lýsa leikjum í Inkasso-deildinni og 2019 byrjaði ég bara að lýsa,“ segir Konni, „og það gekk svona rosalega vel.“

„Hann fór á kostum,“ skýtur Einar inn í. „Fólk var að líkja honum við Rikka G eða Gumma Ben.“

„Ég hef mikla ástríðu fyrir íþróttum, körfubolta og fótbolta. Svo bað körfuknattleiksdeild Njarðvíkur mig um að lýsa körfuboltaleikjunum hjá stelpunum í febrúar og ég fékk með mér minn besta mann í það,“ segir Konni og á auðvitað við Einar félaga sinn. „Svo við sáum um það og í úrslitakeppninni vorum við farnir að búa til peppvídeó fyrir stelpurnar – það vakti mikla ánægju.“

„Njarðvík keypti búnað sem ég var engan veginn sáttur við,“ segir Einar og hristir höfuðið. „Svo þeir þurftu alltaf að leigja búnaðinn frá Keflavík TV.“

Einar er harður Keflvíkingur og Konni harður Njarðvíkingur.


Skapmikill

„Ég varð einu sinni rosalega reiður þegar ég mætti og þá hafði gleymst að láta mig vita að Stöð 2 væri að fara að sýna frá leiknum. Ég varð alveg brjálaður við þá.“

Eftir að Keflavík fór upp í aðra deild hefur útsendingum Keflavík TV fækkað en Stöð 2 hefur sjónvarpsréttinn á þeim leikjum – en Einar deyr ekki úr aðgerðarleysi.

„Núna er ég að sýna frá leikjum RB United sem er að spila í fjórðu deild. Ég byrjaði á því 6. júlí svo það er mikið að gera hjá manni,“ segir Einar að lokum og við eigum örugglega eftir að fá að sjá frá mörgum íþróttakappleikjum sem hann streymir frá í framtíðinni.