Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Markaregn í seinni hálfleik
Arnór Björnsson skallar boltann í netið eftir hornspyrnu Víðismanna. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 13. júní 2022 kl. 08:30

Markaregn í seinni hálfleik

Víðismenn komu sér í næstefsta sæti 3. deildar karla í knattspyrnu þegar þeir unnu stórsigur á Kormáki/Hvöt um helgina. Fátt benti til yfirburðasigurs í fyrri hálfleik en allar flóðgáttir opnuðust í þeim seinni og mörkunum rigndi inn. Lokatölur 5:1 fyrir heimamönnum.

Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik tókst Jóhanni Þór Arnarssyni að skora rétt undir lok hálfleiksins (44') og fóru Víðismenn með forystu inn í leikhléið. Stutt var liðið á seinni hálfleik þegar annað mark Víðis leit dagsins ljós (52') en þá skoraði Arnór Björnsson með góðum skalla eftir hornspyrnu. Skömmu síðar minnkaði Kormákur/Hvöt muninn í 2:1 (58') en Víðismenn héldu áfram blússandi sóknarbolta með vindinn í bakið.

Atli Freyr Ottesen Pálsson skoraði þriðja mark Víðis á 68. mínútu og Stefán Birgir Jóhannesson á þeirri 73. Það var Ísak John Ævarsson sem rak smiðshöggið á stórsigur Víðismanna með marki í uppbótartíma (90'+1).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Menn gátu ekki annað en hlegið eftir fjórða mark Víðis en það skoraði Stefán Birgir Jóhannesson nánast frá miðju.

Með sigrinum eru Víðismenn komnir í annað sæti deildarinnar með tólf stig eins og Dalvík/Reynir og KFG. Víðir er með besta markahlutfall þessara liða.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og náði meðfylgjandi myndum sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.


Tindastóll - RB 13:0

RB sótti Tindastól heim á laugardag en Tindastóll vermir efsta sæti B riðils 4. deildar á meðan RB er í því þriðja.

RB mátti sín lítils gegn yfirburðaliði Tindastóls og töpuðu 13:0 en Stólarnir eru taplausir og með markatöluna 33:3.

Víðir - Kormákur/Hvöt (5:1) | 3. deild karla 11. júní 2022