Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Markamaskínan Óli Þór skoraði vel og heldur áfram
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 1. nóvember 2024 kl. 07:00

Markamaskínan Óli Þór skoraði vel og heldur áfram

„Þetta var rosalegur slagur en eftir að hafa lesið hvað andstæðingur minn hafði að segja fyrir viðureignina, átti ég í raun ekki von á að ná að halda í við Leif, þess vegna var sigurinn þeim mun sætari,“ segir markamaskínan Óli Þór Magnússon. Hann vann Grindvíkinginn Leif Guðjónsson 9-8 í tippleik Víkurfrétta og heldur því áfram í leiknum. Leifur þarf hins vegar að gera sér að góðu að tippa í tippleik Nesfisks en þar hefur hann rekið af slyðruorðið eftir hörmulega frammistöðu í fyrra. Leifi er þökkuð þátttakan.

Úrslitin í leik Óla og Leifs réðust í síðustu spyrnunni í leik Everton og Fulham, Leifur var með 1 2 á leiknum á meðan Óli Þór var með 1 X. Fulham var yfir þar til komið var fram á fjórðu og síðustu mínútuna í uppbótatíma, þá jafnaði Everton og leikurinn endaði því með X-tákni en hefði annars verið 2 og þar með hefðu framherjarnir skipt um hlutverk, Óli að sleikja sárin en Leifur ennþá að fagna sigri. Svona eru íþróttirnar og Óli Þór heldur áfram og mun mæta X úr Garðs-hluta Suðurnesjabæjar. Óli Þór er áfram auðmjúkur.

„Það var gaman að ná að leggja Leif sem er greinilega hörkugóður tippari. Það er oft stutt á milli hláturs og gráturs í þess og þetta datt mín megin núna. Mér líst vel á andstæðing minn og mun að sjálfsögðu leggja leik minn upp á þann máta að sigur sé takmarkið, ég hef aldrei farið í keppni öðruvísi en með það að markmiði að vinna, það er engin breyting á því núna hjá mér,“ sagði Óli Þór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Andstæðingur Óla Þórs í næstu umferð verður Garðspían Þórunn Katla Tómasdóttir. Hún er frá Keflavík en lét eiginmanninn, Jón Ragnar Ástþórsson, teyma sig vestar á Reykjanesið og sér ekki eftir því.

„Ég hef alltaf haft áhuga á knattspyrnu og er í dag í stjórn Víðis. Okkar helsta og í raun eina baráttumál þessa dagana, er að fá þessari ákvörðun um staðsetningu gervigras vallarins í Sandgerði, breytt. Ég hef alltaf sèð fyrir mér gervigras á milli byggðarkjarnanna, þannig vinnum við í að sameina okkur í stað þess að sundra. Öll börn í Suðurnesjabæ þurfa að eiga jafnan rétt.

Ég hef nú ekki verið dugleg að tippa en fylgist alltaf vel með enska boltanum, Liverpool eru mínir menn og ég er ánægð með stöðu liðsins eftir stjóraskiptin, sá nýi var greinilega að taka við góðu búi. Ég hef trú á að mínir menn verði meistarar á þessu tímabili og eigum við ekki að segja að ég stefni sem lengst í þessum tippleik, það byrjar með því að lækka rostann í Óla Þór,“ sagði Þórunn.