Íþróttir

Már valinn íþróttamaður ársins og vann sönglagakeppni Rásar 2
Már með Gunnari föður sínum og núverandi og fyrrverandi þjálfurum sínum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 12. desember 2019 kl. 17:39

Már valinn íþróttamaður ársins og vann sönglagakeppni Rásar 2

Sundmaðurinn Már Gunnarsson er íþróttamaður ársins 2019 hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Hann og systir hans, Ísold, unnu einnig í dag Jólalagasamkeppni Rásar 2.

Már á einkar glæsilegt íþróttaár að baki sem náði hámarki á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í London. Þar varð Már einn Norðurlandabúa til þess að komast á verðlaunapall þegar hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m baksundi og vann til bronsverðlauna í greininni. Þjálfarar Más eru þeir Steindór Gunnarsson og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson.
Á árinu 2019 setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Már stefnir ótrauður að þátttöku á Paralympics í Tokyo 2020 en takist það ætlunarverk hans verður það í fyrsta sinn sem hann keppir á leikunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Árið 2019 var afskaplega viðburðaríkt bæði í músíkinni og sundinu. Ég náði þeim markmiðum sem ég ætlaði að ná og það voru allskonar óvæntar uppákomur sem duttu inn í kjölfarið. Hjá mér er mikið svigrúm fyrir bætingar í sundlauginni og stefnan fyrir árið 2020 er klár og markmiðin enn skýrari,“ sagði Már Gunnarsson í samtali við Hvata, á vefsíðu Íþróttasambands fatlaðra.