Íþróttir

Kolbrún Júlía Evrópumeistari í hópfimleikum
Kolbrún Júlía var í skýjunum eftir helgina þegar Víkurfréttir náðu tali af henni. Myndir af Facebook-síðu Kolbrúnar
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 8. desember 2021 kl. 07:01

Kolbrún Júlía Evrópumeistari í hópfimleikum

Keflvíkingurinn Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman vann það magnaða afrek að verða Evrópumeistari með íslenska kvennalandsliðinu í hópfimleikum um síðustu helgi. Eins og við var að búast var keppnin hörð en Ísland og Svíþjóð voru jöfn að stigum að keppni lokinni, bæði lið hlutu 57.250 stig en stórkostleg frammistaða íslenska liðsins á trampólíni auk þess að fá hæstu einkunn mótsins í gólfæfingum, 22.300 stig, tryggði þeim Evrópumeistaratitilinn. Víkurfréttir heyrðu í Kolbrúnu sem var skiljanlega enn í skýjunum eftir afrek helgarinnar.
Stelpurnar tryllast þegar ljóst er að þær eru orðnar Evrópumeistarar.

„Þetta var alveg stórkostlegt,“ er það fyrsta sem Kolbrún segir og það dylst engum að hún er í sjöunda himni. „Maður trúir þessu varla ennþá en þetta er svo frábært lið, frábærar stelpur, og við erum búnar að vinna vel fyrir þessu.“

Kolbrún Júlía er 23 ára gömul og býr á stúdentagörðunum í Reykjavík en hún er á fullu í háskólanámi. „Ég er nú alltaf með annan fótinn í Keflavík, hjá mömmu. Svo er ég í Háskóla Íslands á þriðja ári í hagnýttri stærðfræði og tölvunarfræði. Þar sem ég hef þurft að einbeita mér að Evrópumótinu hefur skólinn aðeins setið á hakanum undanfarið. Ég helli mér nú af fullum krafti í námið, þarf að taka tvö sjúkrapróf í desember en ég stefni á að klára bæði stærðfræðina og tölvunarfræðina á fjórum árum.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þurfti að færa sig til að verða betri

Eftir EM 2016 segir Kolbrún að hún hafi verið komin það langt á veg að hún var farin að skara fram úr öðrum hjá Keflavík og hún þurfti á breytingu að halda.

„Ég þurfti að ákveða mig. Ég var komin á ákveðna endastöð hjá Keflavík, vinkonur mínar sem ég var búin að æfa með allan þennan tíma voru margar að hætta og ég fann að til að verða betri þurfti ég að æfa með stelpum sem væru betri en ég.

Ég var búin að vera að velta fyrir mér að skipta yfir í Gerplu og svo gerðist það að Gerpla kom í æfingabúðir í Keflavík og ég æfði með þeim. Það varð til þess að ég tók ákvörðun og skipti, þarna voru stelpur sem ég leit á sem stórstjörnur og  margar þeirra eru í dag mínar bestu vinkonur,“ segir Kolbrún sem hefur svo sannarlega náð langt í sinni íþrótt.

Hvenær byrjaðir þú að æfa fimleika og eru það einu íþróttirnar sem þú hefur stundað?

Kolbrún hlær. „Ég hef verið fjögurra eða fimm ára þegar ég byrjaði í fimleikum, bara smá stelpa – en ég var rosalega orkumikil sem barn og það þurfti víst að hafa mig á fullu í íþróttum, annars svaf ég bara ekki. Ég var í sundi, fótbolta og svo lærði ég líka á píanó.“

Hvað er svo framundan hjá þér?

„Eins og ég segi þá eru próf framundan en svo byrja æfingar með félagsliðunum sennilega í næstu viku. Það verður rosalega gaman að mæta á æfingar og gera eitthvað nýtt því í undirbúningi fyrir EM hefur maður bara verið að æfa ákveðin stökk, leggja áherslu á það sama aftur og aftur – svo nú verður bara skemmtilegt að fá að leika sér.

Svo hefst tímabilið hér heima strax eftir áramót og það er verið að fjölga mótunum, þau verða sennilega fimm eða sex á tímabilinu janúar til maí, endar á Íslandsmótinu í maí.“

Frammistaða íslenska liðsins á trampólíni og í gólfæfingum var stórkostleg. Hér stekkur Kolbrún eitt glæsistökkið.

Stutt í næsta Evrópumót

Covid-19 hefur sett mótahald úr skorðum og Evrópumótið sem Kolbrún og félagar hennar í íslenska landsliðinu unnu um helgina er haldið ári á eftir áætlun því EM er ávallt haldið á ári sem endar á sléttri tölu.

„Næsta Evrópumót verður haldið í september á næsta ári þannig að ég býst við að undirbúningur fyrir það hefjist strax,“ segir Kolbrún sem hefur sett stefnuna þangað – hún segist alveg geta hugsað sér annan verðlaunapening eins og þann sem hún vann núna um helgina.

Kolbrún Júlía gæti alveg hugsað sér að vinna svona aftur.

Tengdar fréttir