Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Knattspyrnuvertíðinni lokið í neðri deildum
Sigurður Bjartur Hallsson var án vafa besti maður Grindvíkinga í sumar enda skoraði hann sautján af 38 mörkum liðsins. Nú er spurning hvort Sigurður verði áfram í herbúðum Grindavíkur eða reyni fyrir sér í efstu deild.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 19. september 2021 kl. 13:22

Knattspyrnuvertíðinni lokið í neðri deildum

Í gær fóru fram síðustu knattspyrnuleikirnir í neðri deildunum þetta árið. Þá er aðeins eftir tvær umferðir í efstu deild karla auk bikarleikja en Keflavík er komið í undanúrslit Mjólkurbikars karla.

3. deild karla:

Grindavík - Víkingur Ólafsvík (2:4)

Grindvíkingar náðu ekki að sína sitt besta andlit í sumar og í stað þess að vera að berjast á toppinum enduðu þeir um miðja deild. Stemmningin virðist hafa dottið niður hjá Grindavík og lokaleikur þeirra var gegn botnliði Víkings frá Ólafsfirði sem gerði sér lítið fyrir og vann heimamenn 2:4.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Enn á eftir að ljúka nokkrum leikjum í deildinni en Grindavík hefur lokið leik og endaði í sjöunda sæti sem er ekkert í líkingu við þær væntingar sem voru gerðar til tímabilsins.

Sigurbjörn Hreiðarsson hefur stýrt Grindavíkurliðinu í síðasta sinn en hann og stjórn knattspyrnudeildar UMFG höfðu orðið ásátt um að framlengja ekki samningnum.

2. deild karla:

KV - Þróttur (2:0)

Deildarmeistarar Þróttar enduðu tímabilið á tapi en þeir höfðu þegar tryggt sér sigur í deildinni og fengið bikarinn afhentan á heimavelli um síðustu helgi. Með sigrinum tryggði KV sér far með Þrótti í Lengjudeildina..

Þróttarar eru líklega sáttir við tímabilið enda mun félagið leika á næsta tímabili í fyrsta skipti í næstefstu deild á Íslandi. Þróttarar voru mjög sannfærandi í sumar og virkilega vel að titlinum komnir. Það verður gaman að fylgjast með þeim í Lengjudeildinni að ári.

Þróttur var með besta liðið í sumar.

ÍR - Reynir (4:3)

Reynismenn fóru í Breiðholtið og léku gegn ÍR í leik sem bauð upp á markaveislu eins og svo oft hefur verið boðið upp á í leikjum Reynis í sumar. Heimamenn höfðu betur með fjórum mörkum gegn þremur og voru öll mörkin skoruð í seinni hálfleik.

Reynismenn enda í sjöunda sæti 2. deildar og stóðu við sitt markmið að halda sæti sínu í deildinni en Reynir var nýliði í deildinni.

Reynismenn skoruðu flest mörk í 2. deild í sumar en fengu að sama skapi mörg mörk á sig.

Njarðvík - Völsungur (0:1)

Tímabilið var vonbrigði hjá Njarðvíkingum og lokaleikurinn dæmigerður fyrir það. Njarðvíkingar fengu ágætis færi í leiknum en þeim hefur gengið illa að nýta færin í sumar. Völsungar áttu möguleika á að komast í annað sæti og þeir gerðu sitt til að komast upp, unnu Njarðvík en úr því að KV vann sinn leik endar Völsungur einu stigi á eftir þeim.

Njarðvíkingar settu stefnuna á að fara upp í sumar en þeir misstu flugið og enduðu í sjötta sæti.

Njarðvíkingum gekk ekki nógu vel að nýta færin sín í sumar.

3. deild karla:

Víðismenn héldu til Vopnafjarðar í síðasta leik þar sem þeir léku gegn Einherja. Leikurinn var markalaus og Víðismenn enda í áttunda sæti.

Víðir féll úr 2. deild á síðasta ári og höfðu menn þar á bæ sett stefnuna beint upp aftur en það varð snemma ljóst að það myndi ekki ganga eftir. Víðismenn töpuðu ekki í fimm síðustu umferðunum, unnu einn leik en gerðu fjögur jafntefli.

Jóhann Þór Arnarsson skoraði flest mörk fyrir Víði í deildinni, tólf talsins.