Íþróttir

Keflvískir kórdrengir stóðu í Keflvíkingum
Alexander Magnússon á léttu nótunum við Davíð Snæ Jóhannsson, unglingalandsliðsmann Keflavíkur. VF-myndir/pket.
Miðvikudagur 1. maí 2019 kl. 11:27

Keflvískir kórdrengir stóðu í Keflvíkingum

Grindavík, Njarðvík og Keflavík áfram í bikarnum

Tómas Óskarsson bjargaði Inkasso-liði Keflavíkur með sigurmarki gegn 3. deildarliði Kórdrengja í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar. Tómas skoraði markið á 18. mínútu eftir undirbúning Adams Æ. Pálssonar. Hin Suðurnesjaliðin, UMFG og UMFN komust einnig áfram eftir sigra.

Kórdrengir sýndu það í þessum leik að nafnið hefur ekkert með frammistöðu þeirra að gera en í því eru nokkrir eldri og reyndir leikmenn úr efstu deildum, m.a. fimm sem hafa leikið með Keflavík. Það þótti því mörgum stuðningsmönnum bítlabæjarliðsins skrýtið að sjá Einar Orra Einarsson, Magnús Þóri Matthíasson, Unnar Unnarsson, Alexander Magnússon og Daníel Gylfason berjast við sína gömlu félaga á Nettó-vellinum sem lang flestir eru mjög ungir en Keflavíkur-kórdrengirnir voru allir í byrjunarliði Kórdrengja. Tómas Óskarsson sem skoraði mark Keflavíkur er barnabarn Einar Gunnarsson en hann var miðvöður og fyrirliði um tíma í Gullaldarliði Keflavíkur.

Í Grindavík tóku heimamenn á móti Inkassoliði Aftureldingar sem hélt í við þá í fyrri hálfleik en þá var staðan 1-1. Í seinni hálfleik kom getumunurinn í ljós og Grindvíkingar innsigluðu sigur 4-1. Aron Jóhannsson skoraði tvö mörk en hin þeir Josip Zeba og Kiyabu Nkoyi.

Inkassoliðin Njarðvík og Fram mættust á Framvelli og sýndu Njarðvíkingar sínar bestu hliðar og sigruðu 1-3 eftir framlengingu. Jafnt var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og Fram jafnaði á 90 mín. úr víti. Í framlengingunni skoraði Njarðvík tvö mörk, það fyrra Stefán B. Jóhannesson en hann kom Njarðvík líka yfir 1-0 en það þriðja kom frá Andra Gíslasyni á 115. mínútu.

Fyrsta umferð í Inkasso-deildinni verður á laugardag og sunnudag. Njarðvík leikur 5. maí á útivelli gegn Þrótti R. og Keflavík 6. maí gegn Fram á Nettó-vellinum. Fyrsti nágrannaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur verður fimmtudaginn 23. maí í Njarðvík.

Hér eru nokkrar myndir úr leik Keflavíkur og Kórdrengja.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024