Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Keflvíkingurinn Jóhann Birnir í þjálfarateymi ÍR
Jóhann Birnir og Axel Kári Vignisson, frá knattspyrnudeild ÍR en hann hefur einnig leikið með Keflavík. Mynd af Facebook-síðu ÍR
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 29. september 2022 kl. 13:01

Keflvíkingurinn Jóhann Birnir í þjálfarateymi ÍR

Knattspyrnudeild ÍR hefur samið við Jóhann Birni Guðmundsson um að koma inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla ásamt því að stýra uppbyggingu afreksþjálfunar fyrir yngri iðkendur félagsins. Jóhann Birnir verður annar af tveimur aðalþjálfurum liðsins ásamt Árna Frey Guðnasyni sem tók við þjálfun liðsins í sumar.

Jóhann á að baki farsælan feril, bæði sem leikmaður og þjálfari, og síðast starfaði hann hjá FH sem afreksþjálfari en þar á undan starfaði hann sem yfirþjálfari Keflavíkur. Sem leikmaður lék Jóhann bæði hérlendis og erlendis, þar á meðal með Watford, GAIS og Örgryte áður en hann lauk ferlinum þar sem hann hófst, í Keflavík.

Í samtali við Víkurfréttir sagðist Jóhann Birnir vera spenntur fyrir verkefninu. „Ég þekki náttúrlega Árna Frey vel úr starfinu hjá FH svo það var auðveld ákvörðun taka við þjálfun með honum hjá ÍR. Við stefnum auðvitað á að fara upp um deild en hvort það takist í fyrstu atrennu er erfitt að segja til um. Ný stjórn er tekin við hjá deildinni og þar eru áhugasamir aðilar komnir að borðinu með fullt af spennandi hugmyndum,“ sagði Jóhann Birnir en það má segja að kynslóðaskipti séu hjá liðinu. „Nokkrir af þessum gömlu eru að leggja skóna á hilluna en þetta er stórt félag og margir ungir og efnilegir strákar að koma upp. Þeir þurfa sinn tíma og fá tækifæri til að spreyta sig en væntanlega þurfum við einnig að bæta við einhverjum leikmönnum eins og gengur og gerist.“

Public deli
Public deli

Í spilaranum hér að neðan er viðtal við Jóhann Birni sem birtist á Facebook-síðu knattspyrnudeildar ÍR.