Íþróttir

Keflvíkingar mættu ekki af fullum krafti og féllu úr leik
Keflvíkingar sækja að marki Skagamanna. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 2. október 2021 kl. 19:59

Keflvíkingar mættu ekki af fullum krafti og féllu úr leik

Keflvíkingar léku gegn ÍA í undanúrslitum Mjólkurbikars karla upp á Skaga í dag. Fjöldi stuðningsmanna fylgdi Keflvíkingum á Akranes en því miður voru það heimamenn sem reyndust sterkari í dag. Tímabilið er því á enda hjá Keflavík en Skagamenn mæta Íslandsmeisturum Víkings í úrslitum.

Keflvíkingar settu sér það markmið að halda sæti sínu í Pepsi Max-deildinni í ár og það tókst. Velgengni þeirra í bikarkeppninni er því alger bónus og því var mikil spenna hjá stuðningsmönnum sem fjölmenntu á leikinn. Þurfti þrjár rútur undir mannskapinn og var stemmningin góð á leiðinni og mikil eftirvænting.

Stuðningsfólk Keflavíkur lét vel í sér heyra.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mættu ekki eins og grenjandi ljón

Fyrirfram var vitað að úrslitin myndi ráðast á því hvort liðið væri í betra dagsformi. Liðin tvö eru mjög jöfn, getulega séð, og því var von á hörkuviðureign.

Skagamenn mættu mikið ákveðnari til leiks og framan af fyrri hálfleik voru Keflvíkingar hálfgerðir áhorfendur á eigin leik. Það tók Skagamenn aðeins tíu mínútur brjóta vörn Keflavíkur á bak aftur og komast yfir í leiknum. Þá kom sending fyrir markið og sóknarmaður ÍA fékk fullmikinn  tíma til að athafna sig og ná skoti á markið.

Korteri síðar tvöfölduðu Skagamenn forystuna þegar vindurinn tók útspark Sindra Kristins frá marki Keflavíkur. Skagamenn skölluðu til baka og þar stakk sóknarmaður þeirra sér inn fyrir vörnina og afgreiddi boltann af öryggi fram hjá Sindra (26’).

Bæði mörkin eru lýsandi fyrir muninn á liðunum á þessum tíma, Keflvíkingar voru skrefinu á eftir Skagamönnum í flestum aðgerðum og var refsað fyrir það.

Skagamenn skora seinna markið.

Keflvíkingar fóru aðeins að ranka við sér eftir að vera komnir tveimur mörkum undir en Skagamenn héldu þó áfram að hafa yfirhöndina og voru líklegri til að bæta í. Sindri Kristinn Ólafsson sá til þess að mörkin yrðu ekki fleiri en áður en blásið var til leikhlés varði hann í tvígang mjög vel og átti auk þess góð úthlaup sem stöðvuðu sóknir Skagamanna.

Sindri vel glæsilega.
Eitt besta færi Keflvíkinga átti Christian Volesky með sinni fyrstu snertingu í leiknum en hann kom inn á í seinni hálfleik.

Í seinni hálfleik fór Keflavík að snúa vörn í sókn. Flestallir leikmenn liðsins höfðu verið að spila langt undir getu í þeim fyrri og nú settu þeir undir sig höfuðið og rifu sig í gang.

Keflavík fór að vinna fleiri návígi og sækja meira. Davíð Snær Jóhannsson var kraftmikill og sýndi mikinn baráttuvilja í leiknum en hann var einn fárra sem náði að sýna þá baráttu í fyrri hálfleik. Davíð hljóp kapp í kinn og var sýnt gula spjaldið á 63. mínútu. Hann lét svo reka sig af velli nokkrum mínútum síðar (71’) þegar hann braut ákaflega aulalega af sér, ásetningsbrot og ekkert annað í stöðunni en vísa honum í sturtu.

Að missa mann af velli var ekki það sem var Keflvíkingum að falli í dag. Skagamenn áttu bara betri dag og unnu sanngjarnan sigur, þeir fara því í úrslitaleikinn en tímabilið er búið hjá Keflavík.

Davíð Snær ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum þegar honum var vísað af velli.

Búið að vera gott tímabil hjá Keflavík

Margt gott gerðist á þessu tímabili hjá Keflavík. Liðið fór illa af stað í deildinni en sýndi mikinn karakter og kom til baka til að tryggja sér áfram veru á meðal þeirra bestu.

Gengi Keflavíkur í bikarkeppninni sýnir að það býr yfir miklum hæfileikum sem verður gaman að sjá hvort þroskist ekki enn meir fram að næsta tímabili.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, skellti sér með stuðningsmönnum Keflavíkur á Akranes og má sjá svipmyndir úr leiknum í myndasafni neðst á síðunni.

Joey Drummer fór fyrir stuðningsmannasveit Keflvíkinga sem lét vel í sér heyra.
Leikmenn Keflavíkur gátu ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leik en þökkuðu stuðninginn.

ÍA - Keflavík (2:0) | Undanúrslit Mjólkurbikars karla 2021