Íþróttir

Keflvíkingar af botninum eftir flottan sigur
Joey Gibbs skoraði tvö mörk og hér er seinna marki hans fagnað. VF-myndir/hilmarbragi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 16. júní 2021 kl. 21:08

Keflvíkingar af botninum eftir flottan sigur

Keflvíkingar unnu sannfærandi sigur á HK með tveimur mörkum gegn engu í Pepsi Maxdeild karla í knattspyrnu á HS Orku vellinum í Keflavík í kvöld.

Ástralinn Joey Gibbs var hetja Keflvíkinga og skoraði bæði mörk liðsins í öðrum sigri bítlabæjarliðsins í sumar. Hann náði forystu á 41. Mínútu þegar hann skoraði úr aukaspyrnu með smá hjálp varnarmanns HK. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og fátt um færi.

Keflvíkingar byrjuðu af miklum krafti í síðari hálfleik, voru miklu betri aðilinn og léku flottan fótbolta. Þeir fengu mörg tækifæri til að auka forskotið og einu sinni björguðu gestirnir á línu og nokkrum sinnum varði markvörður þeirra vel. Hann átti hins vegar litla möguleika á að verja skot frá Joey Gibbs á lokamínútu leiksins af löngu færi í bláhornið. Markið gulltryggði sanngjarnan sigur heimamanna sem lyftu sér af botni deildarinnar og eru með 6 stig eins og HK og Stjarnan en með einum leik færra. Á botninum eru ÍA með stigi minna.

Myndasafn fylgir fréttinni en Hilmar Bragi var með vélina á leiknum.

Boltinn dansar á línunni hjá HK.

Keflavík - HK // PepsiMax-deild karla // 16. júní 2021