Íþróttir

Keflavík náði í fyrsta stigið
Rúnar Þór Sigurgeirsson skorar annað mark Keflvíkinga. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 8. maí 2022 kl. 11:04

Keflavík náði í fyrsta stigið

Keflvíkingar áttu flottan fyrri hálfleik gegn Eyjamönnum í gær þegar ÍBV mætti á HS Orkuvöllinn í Bestu deild karla. Heimamenn byrjuðu mun betur og komust yfir en í öðrum leiknum í röð töpuðu þeir forystunni niður. Leiknum lauk með 3:3 jafntefli.

Keflavík - ÍBV 3:3

Leikurinn fór vel af stað hjá Keflvíkingum sem voru ógnandi og höfðu góð tök á miðjunni. Úkraínumaðurinn Ivan Kaliuzhnyi er kominn með leikheimild og lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík, með honum styrktist miðjan verulega og miðað við hans frammistöðu er þarna mikill hvalreki á ferðinni fyrir Keflvíkinga.

Ivan grimmi lét andstæðingan finna fyrir sér – hann á eftir að reynast Keflvíkingum mikil hjálp í sumar ef fer sem horfir enda harður og hraður leikmaður með góða boltameðferð.

Keflvíkingar skoruðu fyrsta mark leiksins á 22. mínútu en fram að því höfðu þeir sótt töluvert að marki ÍBV. Ástralski markahrókurinn Joey Gibbs skoraði þá gott mark eftir undirbúning Adams Ægis Pálssonar. Rúnar Þór Sigurgeirsson tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar (30') og aftur var Adam Ægir með góðan undirbúning.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Adam Ægir var nálægt því að skora þriðja mark Keflvíkinga í lok fyrri hálfleiks en markvörður ÍBV náði að reka fingurnöglina í boltann og slá hann í stöngina.

Rautt spjald vendipunktur leiksins

Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflvíkinga, gerði sig sekan um glórulaust brot á miðjum vellinum (36') en Magnús, sem var á gulu spjaldi, togaði þá leikmann ÍBV niður aftan frá og fékk umsvifalaust seinna gula spjaldið og þar með rautt. Mjög klaufalegt af jafn leikreyndum manni og Magnúsi en þetta reyndist alger vendipunktur í leiknum sem Keflavík hafði haft mjög góð tök á.

Alger óþarfi.

Eyjamenn minnkkuðu muninn snemma í seinni hálfleik (52') og jöfnuðu á 64. mínútu. Útlitið versnaði talsvert fyrir Keflvíkinga þegar Eyjamenn komust yfir á 82. mínútu en á þriðju mínútu uppbótartíma jafnaði Adam Árni Róbertsson og tryggði Keflavík fyrsta stigið í ár.

Keflvíkingar hafa verið klaufar í síðustu tveimur leikjum en í báðum leikjum hafa þeir verið í forystu og tapað henni niður. Keflavík var yfir gegn KA í síðustu umferð en fékk þá tvö mörk á sig í blálok leiks (87' og 90'+1) og í gær virtist allt vera með þeim þar til Magnúsi var vikið af velli.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir sem eru í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - ÍBV (3:3) | Besta deild karla 7. maí 2022