Íþróttir

Keflavík fór upp fyrir Stjörnuna með sigri
Joey Gibbs skoraði tvö í gær. Mynd úr fyrri viðureign liðanna
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 4. júlí 2021 kl. 11:02

Keflavík fór upp fyrir Stjörnuna með sigri

Keflvíkingar náði sínum fyrsta sigri í efstu deild þegar þeir tóku á móti Stjörnunni í fyrri umferð Pepsi Max-deildarinnar. Liðin mættust í gær í seinni umferðinni og aftur hafði Keflavík sigur.

Stjarnan mætti ákveðin til leiks og fyrsta korterið af leiknum var Keflavík nánast í nauðvörn og það var ekki fyrr en á 17. mínútu að Keflvíkingar áttu fyrsta skot að marki. Þá sendi Nacho Heras góða fyrirgjöf á Joey Gibbs sem afgreiddi boltann í netið. Keflavík komið yfir gegn gangi leiksins.

Leikurinn dampaðist aðeins niður eftir markið, Keflvíkingar komust betur inn í leikinn og Stjarnan sótti ekki jafn stíft og áður. Keflavík fékk hornspyrnu þegar stutt var til leikhlés og eftir mikinn darraðadans í teig Stjörnunnar skoraði Gibbs öðru sinni (38') og Keflavík leiddi með tveimur mörkum í hálfleik.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Keflavík fékk aðra hornspyrnu í upphafi seinni hálfleiks, þá mætti Nacho Heras fyrirgjöfinni og skoraði þriðja mark Keflvíkinga (48'). Keflvíkingar sóttu stíft og skömmu síðar átti Davíð Snær skot í þverslá, síðan komst Kian Williams í færi en markvörður Stjörnunnar náði að bjarga. Stjarnan brunaði í skyndisókn eftir dauðafæri Williams og sóknarmaður þeirra var felldur í teig og víti dæmt. Stjarnan skoraði úr vítinu og staðan 3:1 (57').

Eftir markið hresstust Stjörnumenn töluvert og við tók stíf pressa á Keflavík. Vörn Keflvíkinga var búin að vera frábær í leiknum með miðvarðaparið Magnús og Frans í aðalhlutverki – en á 69. mínútu náðu Stjörnumenn að minnka muninn í eitt mark eftir hornspyrnu.

Keflavík missti fyrirliða sinn meiddann af velli þegar korter var eftir af leiknum en vörn Keflavíkur þétti raðirnar og stóð af sér sóknir heimamanna sem voru þungar síðustu mínúturnar.

Keflavík landaði góðum sigri og komst upp fyrir Stjörnuna. Keflavík hefur nú þrettán stig líkt og Stjarnan en Stjarnan hefur leikið tveimur fleiri leiki en Keflavík sem situr nú í sjötta sæti deildarinnar.