ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Íþróttir

Keflavík blandar sér í botnbaráttuna
Þriðja mark KR og Keflvíkingar ekki sáttir. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 19. júní 2022 kl. 21:20

Keflavík blandar sér í botnbaráttuna

Keflavík og KR áttust við í tíundu umferð Bestu deildar kvenna í dag á HS Orkuvellinum í Keflavík. Keflvíkingar skoruðu þrjú mörk af fjórum en því miður voru tvö þeirra sjálfsmörk og því fóru KR-ingar með sigur af hólmi, 1:3. Grátlegt tap sem setur Keflavík nærri botninum þegar mótið er rúmlega hálfnað.
Amelía Rún var dugleg frammi.

Fyrsta markið kom á 10. mínútu þegar Kristrún Ýr Holm ætlaði að hreinsa frá marki Keflvíkinga en boltinn fór í Caroline Mc Cue Van Slambrouck og þaðan í markið. Kristrún bætti fyrir þetta óhapp um korteri síðar (24') þegar hún skoraði jöfnunarmark fyrir Keflavík. Markið skrifast á markvörð KR sem missti boltann klaufalega eftir skot/sendingu Kristrúnar.

KR komst yfir skömmu fyrir hálfleik (40') með góðri sendingu inn fyrir vörn Keflavíkur og átti sóknarmaður KR ekki í vandræðum með að klára færið. Staðan 1:2 í hálfleik.

Ana Paula Santos Silva skoraði þrennu í fyrri viðureign liðanna, hún fékk fá marktækifæri í dag.

Keflvíkingar þurftu að sækja í seinni hálfleik en gestirnir höfðu leikið skynsamlega, legið aftarlega og látið boltann ganga innan liðsins. KR hafði stjórn á leiknum en síðasta hálftímann fóru Keflvíkingar að gerast áræðnari og sækja. Þeim reyndist samt erfitt að ná upp samspili og halda boltanum innan liðsins. Helst var það samleikur þeirra Amelíu Rúnar Fjeldsted og Silvia Leonessi ofarlega vinstra megin sem virtist ætla að bera árangur en sóknir heimaliðsins náðu aldrei að skapa neina hættu að ráði við mark KR, Keflvíkingar náðu ekki að brjóta vörn KR-inga á bak aftur og gestirnir gerðu út um leikinn á 85. mínútu með hraðri sókn. KR sótti hratt og sóknarmaður þeirra náði góðu skoti sem Samantha Murphy varði en boltinn fór í Kristrúnu Ýr og í markið.

Nú fer Besta deild kvenna í frí fram yfir EM kvenna og Keflavík situr í sjöunda sæti með tíu stig, jafnmörg stig og Þór/KA sem situr í því áttunda. KR komst í sjö stig og á botninum er Afturelding með sex stig en bæði botnliðin unnu sína leiki í dag.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir og viðtal við fyrirliðann, Kristrúnu Ýr, eftir leik.

Keflavík - KR (1:3) | Besta deild kvenna 19. júní 2022