Íþróttir

Keflavík án stiga eftir fjórar umferðir
Patrik Johannesen kom Keflavík yfir en það dugði ekki til. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 3. maí 2022 kl. 08:52

Keflavík án stiga eftir fjórar umferðir

Keflavík hélt norður á Dalvík í gær þar sem KA tók á móti þeim í Bestu deild karla í knattspyrnu. Eftir erfiða byrjun á Íslandsmóti, þrjú töp, leit út fyrir fyrsta sigur Keflavíkur í ár kæmi í leiknum í gær en tvö mörk í lokin sáu til þess að KA hafði betur, 3:2 lokatölur.

Keflvíkingar áttu sín færi í fyrri hálfleik en KA-menn fóru að þyngja sóknina eftir því sem leið á leikinn. Rétt undir lok fyrri hálfleiks komust norðanmenn yfir (42') en Ingimundur Aron Guðnason jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleik (45'+1) og því allt jafnt þegar leikmenn gengu til búningsklefa.

Það lá talsvert á Keflavík í seinni hálfleik en á 69. mínútu vann Edon Osmani boltann á miðju, lék upp völlinn og sendi boltann svo á Færeyinginn Patrik Johannesen sem gerði engin mistök og kom Keflavík í forystu (1:2). Þannig hélst staðan þar til í blálokin þegar KA fékk vítaspyrnu eftir að fyrirliði Keflvíkinga, Magnús Þór Magnsússon, braut á sóknarmanni heimaliðsins. KA jafnaði leikinn úr vítaspyrnunni (87') en Sindri Kristinn Ólafsson var nálægt því að verja. Staðan 2:2 og norðanmönnum hljóp kapp í kinn við jöfnunarmarkið, þeir sóttu áfram og þremur mínútum síðar (90') komst KA yfir (3:2) og stálu sigrinum ef svo mætti segja. Svekkjandi niðurstaða fyrir Keflavík sem eygði von um fyrstu stigin sín í sumar.