Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Íþróttir

Keflavík áfram í Pepsi Max-deild kvenna
Tiffany Sornpao og Aerial Chavarin hafa átt gott tímabil með Keflavík. Sornpao hefur verið góð milli stanganna í sumar og Chavarin skoraði sjö mörk í sextán leikjum, þar á meðal í mikilvægu jafntefli gegn Íslandsmeisturum Vals í næstsíðu umferð Pepsi Max-deildarinnar.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 13. september 2021 kl. 09:14

Keflavík áfram í Pepsi Max-deild kvenna

Keflvíkingar tryggðu sér áframhaldandi veru í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu en lokaumferðin í deildinni fór fram um helgina. Keflavík lék gegn Þór/KA fyrir norðan og var markalaust jafntefli niðurstaðan í heldur bragðdaufum leik.

Keflavík dugði jafntefli til að halda sæti sínu í deildinni en Keflavík hafði sautján stig fyrir leikinn. Tindastóll var þremur stigum á eftir Keflavík, með fjórtán stig, og hefðu Stólarnir þurft að vinna sinn leik og Keflavík að tapa, til að Tindastóll gæti haldið sínu sæti í deildinni. Þar fyrir utan hafði Keflavík sex mörkum betri markatölu. Svo fór að Tindastóll tapaði fyrir Stjörnunni og Keflavík lýkur því leik fjórum stigum fyrir ofan þær, í áttunda sæti.

Keflavík gerði það sem þurfti og sótti jafntefli gegn Þór/KA í leik tveggja sterkra varnarliða. Það voru ekki mörg færi sem litu dagsins ljós í leiknum og Keflavík lá svolítið til baka. Aerial Chavarin var ein frammi og gat lítið afrekað án aðstoðar, hún var þó nálægt því nokkrum sinnum að koma sér í færi. Tiffany Sornpao hefur virkað öruggari með hverjum leiknum og hún átti fínasta leik í gær og varði nokkru sinnum ágætlega.

Viðreisn
Viðreisn

Í viðtali við Fótbolta.net sagði Gunnar M. Ólafsson, þjálfari Keflvíkinga: „Það voru margir sem spáðu okkur niður og enn fleiri þegar við fórum inn í þessa lokatörn þegar við erum neðstar og eigum eftir þetta gríðarlega erfiða program, fara til Vestmannaeyja og ná í sigur, fara á Krókinn og vinnum, koma hingað og ná í stig og inná milli eigum við leiki gegn Val og Breiðablik og náðum í stig þar líka, taplausar í gegnum þessa leiki sem er geggjuð frammistaða."

Keflavík endar leiktíðina í áttunda sæti Pepsi Max-deildar kvenna og þeirra bíður því annað ár á meðal þeirra bestu.