Valhöll
Valhöll

Íþróttir

Kári og Kamel tryggðu Keflavík farmiðann á Laugardalsvöll
Kári Sigfússon, Sami Kamel og Ásgeir Helgi Orrason fagna seinna marki Keflavíkur. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 22. september 2024 kl. 17:10

Kári og Kamel tryggðu Keflavík farmiðann á Laugardalsvöll

Keflavík réði lögum og lofum þegar Keflavík og ÍR mættust í fyrri undanúrslitaleiknum og höfðu þriggja marka forskot fyrir leikinn í dag eftir 4:1 sigur. ÍR-ingar voru hins vegar ekki reiðubúnir að leggja árar í bát og jöfnuðu einvígið í fyrri hálfleik. Kári Sigfússon og Sami Kamel skoruðu sitt markið hvor og tryggðu Keflavík farseðilinn í úrslitaleikinn á Laugardalsvelli.

Keflavík - ÍR 2:3

Heimamenn virtust hálfværukærir í upphafi leiks á meðan baráttuglaðir ÍR-ingar gáfu allt í leikinn og sóttu stíft. Það skilaði sér fljótlega og eftir þrettán mínútna leik skoraði Guðjón Máni Magnússon fyrir gestina. Hann var aftur á ferðinni þremur mínútum síðar (16’) og tvöfaldaði forystuna en gestirnir voru ekki hættir og Bragi Karl Bjarkason skoraði þriðja mark ÍR á 35. mínútu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Heimamenn fengu sín færi en framan af vildi boltinn ekki inn.
Ásgeir Orri kemur engum vörnum við í öðru marki ÍR.

Þegar þarna var komið við sögu var skyndilega allt orðið jafnt í einvíginu (4:4) og bæði lið komin á byrjunarreit.

Stuðningsmenn Keflvíkinga fannst því kærkomið þegar Kári Sigfússon minnkaði muninn í uppbótartíma (45’+1) og Keflavík aftur komið með yfirhöndina í einvíginu.

Fyrirgjöf frá Kára og Sami Kamel skorar af öryggi.

Keflvíkingar rifu sig upp og mættu ákveðnari í seinni hálfleik. Sami Kamel og Sindra Snæ Magnússyni var skipt inn á og á 69. mínútu skoraði Kamel annað mark Keflavíkur eftir fyrirgjöf frá Kára.

Mörkin hefðu getað orðið fleiri beggja megin vallarins en lokatölur urðu 2:3 og Keflavík mætir því annað hvort Aftureldingu eða Fjölni í úrslitum á Laugardalsvelli næstkomandi laugardag.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, tók viðtöl við Frans Elvarsson, fyrirliða, og Hólmar Örn Rúnarsson, aðstoðarþjálfara Keflavíkur, eftir leik. Viðtölin má sjá í spilurunum hér að neðan. Myndasafn er neðst á síðunni. 

Frans Elvarsson, fyrirliði Keflvíkinga.


Hólmar Örn Rúnarsson, aðstoðarþjálfari Keflvíkinga.

Keflavík - ÍR (2:3) | Umspil Lengjudeildar karla 22. september 2024